27/04/2024

Skíðafélagið að komast á skrið

Skíðagöngufólk á Ströndum hóf æfingar laust fyrir áramót og gekk vel þar til snjóa leysti að nýju. Mótaskrá vetrarins er nú tilbúin og aðgengileg á vef Skíðafélags Strandamanna, en í henni eru heimamót og þau mót sem Strandamenn eru líklegir til þátttöku í. Sprettganga verður sett á með stuttum fyrirvara ef nægur snjór kemur til að hægt sé að halda hana á Hólmavík. Æfingatafla vetrarins er einnig tilbúin, en æft verður þrisvar í viku til að byrja með. Fram hefur komið að a.m.k. tveir Strandamenn ætla sér að taka þátt í Vasagöngunni í ár.

Þátttaka var góð í fyrra vetur og árangur á stórmótum á landsvísu eftir því. Eftir boðgönguna þann 1. maí síðstliðið vor var uppskeruhátíð Skíðafélags Strandamanna haldin í Félagsheimilinu á Hólmavík. Allir komu þá með eitthvað gott á grillið og áttu góða stund saman. Veittar voru viðurkenningar fyrir veturinn en skíðamaður ársins 2007 var kosinn Ólafur Orri Másson, en hann náði mjög góðum árangri á skíðamótum síðasta vetrar. Bikar fyrir framfarir hlaut Jakob Ingi Sverrisson og fyrir mætingu Branddís Ösp Ragnarsdóttir og Stefán Snær Ragnarsson. Er það mál manna að uppskeruhátíðin síðasta vor hafi lukkast vel og má reikna með að hún verði árviss lokapunktur vetrarins.