12/09/2024

Sjómannadagur á Drangsnesi

Dagskrá sjómannadagsins á Drangsnesi var með hefðbundnu sniði þetta árið. Séra Sigríður Óladóttir sóknarprestur var með helgistund við minnisvarða sjómanna á Drangsnesi og var góð mæting að venju. Þetta mun hafa verið 14 helgistund hennar við minnisvarðann. Síðan var farið á íþróttavöllinn og brugðið á leik. Þarna var létt keppni gömlum og góðum íþróttagreinum eins og eggjaboðhlaupi, pokahlaupi og reiptogi og fleiru. Síðan var tekinn smá fótbolti meðan grillmeistararnir voru að störfum. Björgunarsveitin Björg bauð upp á grilluð lambalæri og mæltist það vel fyrir og var sérstaklega vel mætt í grillveisluna að þessu sinni.