22/12/2024

Siggi og Snúlla með skrautlegt tipp

Það eru þau Ásdís Jónsdóttir og Sigurður Atlason sem eigast við í tippleik strandir.saudfjarsetur.is þessa helgina. Það er óhætt að segja að spárnar hafa aldrei verið skrautlegri en nú – vægt til orða tekið. Ásdís velur sigurlið út frá pílukasti, hárgreiðslu leikmanna, biblíuþekkingu og mjög dónalegum þýðingum á enskum nöfnum framkvæmdastjóra. Siggi byggir sína spá hins vegar á þekkingu frá árinu 1973. Þá var hann upp á sitt besta í boltanum, en fór síðan að eltast við stelpur. Siggi heldur því m.a. fram í spánni sinni að leikmenn Derby séu samkynhneigðir, Issviss sé fínt nafn á nýtt sveitarfélag, Preston tapi vegna þess að hann getur ekki haldið með prestum og liðsnafnið QPR þýði Qool Preperation Rangers. Hinar grafalvarlegu og djúpspöku spár Ásdísar og Sigga má lesa hér fyrir neðan:

Ásdís: Nú verð ég  að hafa aðra aðferð en síðast, ég ætla að setja upp leikmann á skífu og skjóta pílum í hann fyrir hvern leik. Ef ég hitti fyrir ofan mitti, þá vinnur heimaliðið, ef ég hitti í fæturnar þá skíttapar það, og ef ég hitti þar á milli þ.e.í punginn á honum, þá er jafntefli!

1. Portsmouth – Blackburn

Ásdís: Og þá er best að byrja. Portsmouth vinnur Blackburn. Það held ég að sé út af nýjum leikmanni þeirra sem er held ég frá Argentínu og er með hanakamb eins og við Jón sonur minn erum með, reyndar frá náttúrunnar hendi. Portsmouth maðurinn fékk píluna í hausinn. Tákn: 1.

Siggi: Portsmouth vinnur leikinn eftir að Blackburn brennur af vítaspyrnu og þjálfarinn gengur svartur af leikvelli. (Eru þjálfarar ekki örugglega á leikvanginum líka?) Tákn: 1.

+++

2. Charlton – Everton

Ásdís: Charlton gerir jafntefli við Everton. Æ,æ, það tekur á að skjóta svona pílum. Tákn: X.

Siggi: Ég set alltaf sigur á Everton þegar ég tippa eftir að lánið varð með þeim árið 1973 og ég dró þá upp úr makkintoss dollunni sem fyrsta lið að halda með. (Eru þeir ekki ennþá í bláum búningum?) Tákn: 2.

+++

3. Sunderland – Fulham

Ásdís: Úff og aftur hitti pílan þennan viðkvæma stað. Kannske eru Sunderland sáttir með að tvífari Ása á Hnitbjörgum sé hættur að þjálfa þá. Tákn: X.

Siggi: Sunderland einn og Fulham í fýlu. Sagan endurtekur sig í sífellu. Það er engin spurning. Tákn: 1.

+++

4. Cardiff – Reading

Ásdís: Pílan í lappirnar á Reading manninum. Tákn: 2.

Siggi: Háskólapiltarnir í Cardiff gleymdu að lesa heima og tapa fyrir Reading eftir arfaslaka byrjun. Svo hafa þeir verið lengur í fyrstu deild og rata þar af leiðandi betur um völlinn. Tákn: 2.

+++

5. Sheffield Utd. – Hull

Ásdís: Hull er fornfræg hafnarborg sem íslendingar voru vondir við í þorskastríðum. Tákn: 1.

Siggi: Shefferfiled Júnæted vinna með glæsibrag. Tákn: 1.

+++

6. Leeds – Plymouth

Ásdís: Plymminn hans Hadda verður bensínlaus í leik þessum. Tákn: 1.

Siggi: Leeds vinna. Þeir voru allavega sæmilegir 1973. Það eru þessir í hvítu nærskyrtunum. Tákn: 1.

+++

7. Wolves – Coventry

Ásdís: Pílan gildir og ekkert svindl. Fyrirgefðu Arnar minn. Tákn: 1.

Siggi: Úlfarnir í rauðþverröndóttu skyrtunum koma sterkir inn og skora fyrsta markið. Coventrymenn læra skyndilega nýtt bragð og skora annað mark og það þriðja. Staðan er 1 – 2 fyrir Coventry þar tíu mínútur eru eftir af leiknum og Addi ofsa kátur. Þá skorar varamaður Úlfanna eitt mark og jafnar eftir að hafa snert boltann með hendi. Coventry menn missa sig algerlega og tveir reknir útaf og Jess Nolsson, sænski þriðjimaðurinn skorar sigurmark úlfanna eftirminnilega. 3-2 fyrir Úlfunum og sætið í fyrstu deild tryggt næstu fjögur keppnistímabil. Tákn: 1.

+++

8. Preston – Norwich

Ásdís: Pílan segir 1. Prestarnir vinna með guð í markinu. Tákn: 1.

Siggi: Ég bara get ekki haldið með prestum. Tákn: 2.

+++

9. Ipswich – Stoke

Ásdís: Wichið í Ipswich er borið fram eins og enska orðið yfir norn sem er witch. Tákn: 1.

Siggi: Issviss sagði ég alltaf þegar ég var að læra ensku árið 1973. Síðan hefur mér þótt það gott heiti á nafnlausu sveitarfélagi. Áfram Issviss! Tákn: 1.

+++

10. Burnley – QPR

Ásdís: Pílan beint í punginn á þeim báðum. Tákn: X.

Siggi: Ég er viss um að þarna setur Ásdís 2 líka. Þessvegna geri ég það líka. Qool Preperation Rangers hafa aldrei klikkað meðan ég man. (Eru þeir ekki líka röndóttir?) Tákn: 2.

+++

11. Brighton – Southampton

Ásdís: Aftur X, ég er nú samt ekkert að miða sérstaklega á þetta. Tákn: X.

Siggi: Verð að prufa að setja einhversstaðar X. Þetta er ekki verri leikur en hver annar til þess. (Eða voru það strákarnir frá Southampton sem voru röndóttir?. Það er nú frekar eins og mig í rámi í það). Tákn: X.

+++

12. Derby – Millwall

Ásdís: Einhver sagði mér að Halli Kiddi héldi með Derby og við eigum sama afmælisdag. Tákn: 1.

Siggi: Hommarnir í Derby kunna sitthvað annað en spila fótbolta og sanna það með sigri á Millwall. Tákn: 1.

+++

13. Crewe – Sheff. Wed.

Ásdís: Þjálfari Crewe heitir Dario Gradi  = Daddi Graði á íslensku. Skaut hann í hausinn. Tákn: 1.

Siggi: Rakinn heimasigur, jafnvel þó um arfaslakt lið sé að ræða. Árið 1973 þegar ég uppgötvaði að það var til eitthvað annað en stelpur og sandkassaleikur þá var Crewe ekki til. Tákn: 1.

+++

Ásdís: Gott þetta er búið, en það er gaman að skjóta pílum. Við hvern ætli ég sé að keppa?

Siggi: Svona er það. Ef þetta verður ekki fyrsti sigur minn yfir Ásdísi í einhverju þá er ég illa svikinn. Lengi lifi tuðrusparkið.