05/11/2024

Óveðrið á Ströndum

Kópnes

Ekki varð eins hvasst við Steingrímsfjörð á Ströndum og víða annars staðar í óveðrinu mikla sem gekk yfir landið síðastliðna nótt. Þannig sýndi vindmælir í Skeljavík við Hólmavík mest 24 m/s vindhraða, en hviður upp á 32 m/s. Í Árneshreppi varð töluvert hvassara, en mælir á Gjögurflugvelli sýndi 31 m/s vindhraða og hviður upp á 29 m/s. Þar varð foktjón á útihúsum og íbúðarhúsi á Steinstúni í Norðurfirði, frá því segir á vefnum litlihjalli.is. Á Hólmavík var rólegt hjá Björgunarsveitinni Dagrenningu sem hugaði þó að útihúsi við gamla Kópnesbæinn, en húsakostur þar er orðinn mjög illa farinn og raunar ótrúlegt að húsin standi enn uppi.

Rafmagn tolldi inni á Ströndum í óveðrinu, bæði í Árneshreppi og sunnar í sýslunni, og má örugglega þakka það framtaki Orkubúsmanna við að leggja jarðstrengi í stað loftlína síðustu ár. Á Langadalsströnd í Djúpi brotnaði fjöldi rafmagnsstaura milli Nauteyrar og Blævardalsárvirkjunar í óveðrinu og einnig utan við Melgraseyri. Allir bæir þar sem búið er fengu rafmagn aftur í dag, bæirnir í Skjaldfannadal frá Blævardalsárvirkjun um kl. 17:00. Straumlaust er hins vegar á Hallsstöðum og Hafnardal og utan Melgraseyrar. Rafmagnslaust var einnig í dreifbýlinu vestan Djúps, en tókst að koma rafmagni á þar aftur um kl. 15:00 í dag.