15/04/2024

Sérstakt eftirlit með þungaflutningum á Vestfjörðum

Fram kemur á vef Ríkislögreglustjóra að lögreglan á Vestfjörðum mun á næstu mánuðum leggja áherslu á eftirlit með þungaflutningum í umdæminu. Þarna er á ferðinni tilraunaverkefni í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra sem nefnist verkefnamiðuð löggæsla. Í tengslum við þetta munu lögreglumenn vera í samstarfi við Umferðareftirlitsdeild Vegagerðarinnar og eins koma starfsmenn Vegagerðarinnar á Ísafirði að verkefninu.

Með þessu framtaki vilja löggæsluaðilar á Vestfjörðum leggja sitt að mörkum við að auka umferðaröryggi á vegum þar sem þungaflutningar eru mjög miklir. Þá gefur þetta verkefni af sér upplýsingar og gögn sem nýta má til að greina vanda sem snýr að þessum flutningum, hvort sem er varðandi vegina sjálfa, ökutækin eða ökumenn þeirra.

Flutningabíllinn sem valt framan við Kirkjuból á Ströndum um daginn, aftur kominn á hjólin – ljósm. Jón Jónsson.