22/12/2024

Samþykkt að rífa Taflhúsið á Hólmavík

Á síðasta fundi Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar samþykkti nefndin að leggja til við sveitarstjórn að Taflhúsið á Hólmavík yrði rifið hið fyrsta. Var það síðan staðfest á sveitarstjórnarfundi. Taflhúsið sem stendur við Kópnesbraut er 50 ára gamalt á þessu ári, var tekið í notkun í janúar 1958. Það var reist af Taflfélagi Hólmavíkur úr viðunum af íbúðarhúsinu í Vatnshorni og var teiknað af ritara félagsins, Óla E. Björnssyni.

Í Hólmavíkurbók Óla E. Björnssonar kemur fram að Hólmvíkingar telja að Taflhúsið sé fyrsta og jafnvel eina húsið á landinu sem gagngert hafi verið byggt til að tefla í, en það var gert af krafti fyrstu árin. Einnig var þar smíðastofa að minnsta kosti tvisvar sinnum og bækur Héraðsbókasafnsins voru geymdar þar um tíma. Um 1976 var húsið lagfært töluvert og teflt af krafti að nýju, en um það leyti fluttu tveir fyrrverandi Íslandsmeistarar í skák til Hólmavíkur, Helgi Ólafsson og Jón Kristinsson. Einnig var spilað bridge af kappi í húsinu fram á síðasta áratug síðustu aldar. Húsið hefur staðið ónotað síðustu ár. Það er 53 fermetrar og er í eigu Strandabyggðar. 

Taflhúsið á Hólmavík – ljósm. Sigurður Atlason