26/04/2024

Sameiningartillögur ekki tilbúnar

Eins og mönnum er kunnugt er nú í gangi átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins hér á landi. Sameiningarnefnd hefur ákveðið að kosið verði um sameiningu sveitarfélaga vítt og breitt um landið þann 23. apríl næstkomandi, en ekki liggja enn fyrir endanlegar tillögur frá nefndinni um hvaða sameiningu á að kjósa um. Vekur þessi seinagangur nokkra furðu, rétt eins og vandræðagangur í viðræðum sveitarfélaga og ríkis um tekjustofna sveitarfélaganna. Hlýtur hvort tveggja að vera óheppilegt innlegg í þetta ferli.

Í fyrstu tillögum sameiningarnefndar var annars vegar gert ráð fyrir sameiningu Broddaneshrepps, Hólmavíkurhrepps, Kaldrananeshrepps og Árneshrepps og hins vegar var gert ráð fyrir að Bæjarhreppur sameinaði Húnaþingi vestra. Endanlegar tillögur sameiningarnefndar eru bindandi að því leyti að íbúar verða að greiða um þær atkvæði. Sveitarstjórnir geta ekki ákveðið að atkvæðagreiðsla fari ekki fram í þeirra sveitarfélagi.

Sveitarstjórnir sem lagt er til að sameinist eiga hver og ein að skipa tvo fulltrúa í samstarfsnefnd sem annast undirbúning atkvæðagreiðslu um tillöguna og gerð kynningarefnis um áhrif sameiningar. Þessari nefnd er þannig ekki ætlað að ræða um hvort sameina eigi, heldur ber henni að undirbúa kosninguna og gera kynningarefni.

Ef sameining er samþykkt í öllum sveitarfélögum sem tillaga nær til, þá tekur sú sameining gildi eftir kosningar í nýju sveitarfélagi vorið 2006, nema sveitarstjórnir ákveði annað í samráði við félagsmálaráðuneytið. 

Ef tillaga sameiningarnefndar fær hins vegar ekki samþykki íbúa í öllum sveitarfélögunum, er athugað hvort meirihluti þeirra sem afstöðu tóku hafi verið samþykkur tillögunni og greitt með henni atkvæði. Ef svo er á að greiða aftur atkvæði  innan sex vikna í þeim sveitarfélögum þar sem tillaga var felld. Skilyrði fyrir þessu er þó að tillagan hafi verið samþykkt í a.m.k. tveimur sveitarfélögum. Rökin fyrir þessu eru þau að hugsanlega breytist afstaðan í sveitarfélögum þar sem tillögunni var hafnað við að sjá að menn séu fylgjandi henni í öðrum sveitarfélögum sem hún náði til.

Að lokinni þessari síðari atkvæðagreiðslu ef af verður, er sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga var samþykkt heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga. Þetta verði þó ekki gert nema tillaga hafi verið samþykkt í a.m.k. 2/3 sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/3 íbúa á svæðinu. 

Sameiningarnefnd getur síðan ákveðið að leggja fram nýja tillögu um sameiningu sveitarfélaga, ef tillaga nefndarinnar er felld í atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðsla um þá tillögu á þá að fara fram á tímabilinu október 2005 til janúar 2006. 

Ekki hefur verið staðfest að lögum um lágmarksfjölda íbúa í einstökum sveitarfélögum verði breytt vorið 2006, ef sameiningar gangi hægt og verði felldar. Árni Magnússon félagsmálaráðherra ýjaði hins vegar að því í viðtali í Ríkissjónvarpið á dögunum að sú tala yrði hugsanlega hækkuð úr 50 í 400 ef með þyrfti.

Í sveitarstjórnarkosningum 27. maí 2006 verða sveitarstjórnir hinna nýju sveitarfélaga kjörnar og taka þær til starfa 9. júní sama ár.

Tröllin í Drangavík ætluðu við þriðja tröll að skilja Vestfirði frá meginlandinu. Ekki er tekið fram í sögunni hvort tröllin hafi ætlað að skipta fjórðungnum í mörg sveitarfélög.