22/12/2024

Sænska sjónvarpið við tökur á Hólmavík

Sænska sjónvarpið var á Hólmavík um helgina við upptökur á sjónvarpsþætti um íslenskar bókmenntir sem verður sýndur í sænska ríkissjónvarpinu í desember. Upptökur af hluta þáttarins fóru fram á Hólmavík þar sem tekið var viðtal við Yrsu Sigurðardóttur rithöfund en hún skrifaði skáldsöguna Þriðja táknið fyrir síðustu jól. Galdrasýning á Ströndum kemur nokkuð við sögu í bókinni. Að sögn sænsku sjónvarpsmannana kom aldrei annað til greina en að taka viðtalið við Yrsu á Hólmavík og tengja sýninguna inn í þáttinn. Þriðja táknið hefur verið þýdd yfir á fjögur tungumál og þar á meðal sænsku. Í þættinum kemur einnig fram galdramaður af Ströndum sem kennir Svíum m.a. að verja sig gegn ósannsögli stjórnmálamanna.

Sænska sjónvarpið sendi fimm manna tökulið til Íslands að taka viðtöl við nokkra vel kunna íslenska rithöfunda og ferðin til Hólmavíkur voru einu kynni þeirra af landsbyggðinni.


Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur svarar spurningum sænsku þáttagerðarmannana á Hólmavík