10/12/2023

Reiðnámskeið og jarðeldur í grennd

Þegar fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is átti leið fram að Víðidalsá fyrir skömmu til að heilsa upp á Skúla bónda, sem stendur í þakviðgerðum þessa dagana, ók hann fram á reiðnámskeið það sem kynnt var hér á vefnum á dögunum. Þarna voru allmargir krakkar á hestbaki undir öruggri stjórn Heiðdísar Örnu Ingvarsdóttir, en aðsókn var góð að námskeiðinu og er þátttakendum skipt í tvo hópa. Bæði hestar og börn í þeim hóp sem var á baki virtust hin kátustu.

Skammt frá rak fréttaritari augu í slökkvibíl úti í miðju flagi utan við Víðidalsá og dældi hann vatni á flagið og virtist stíga reykur upp. Foreldrar barna á námskeiðinu reyndu að skrökva því að fréttaritara að þarna hefði fundist jarðeldur í holu, en aðrir sögðu að þarna hefði logað hrævareldur um hábjartan dag og hann færi að venju undan í flæmingi þegar reynt væri að slökkva. Hið sanna hefur ekki komið enn ljós og slökkviliðsmenn voru of langt undan, en myndavélin var á lofti og súmmað á bílinn til að afla sönnunargagna.

Skúli var ekki heima. Svona getur lítill viðburður orðið að langri frétt.

Ljósm. Jón Jónsson