29/04/2024

Rafmagnsleysi sunnan Hólmavíkur

Rafmagnslaust var í gær í sveitunum sunnan Hólmavíkur í um tvo tíma í gærkvöld frá því laust fyrir sjö fram undir níu. Þá kom rafmagn aftur á Tungusveit að minnsta kosti, en hugsanlega hefur verið rafmagnslaust lengur í Kollafirði og Bitru. Rafkerfið suður Strandir frá Þverárvirkjun er ekki hringtengt um Stikuháls þannig að ef bilun verður í Tungusveitinni eru Kollafjörður og Bitra alltaf úti líka. Ef bilun er í Kollafirði er með sama hætti alltaf rafmagnslaust í Bitrunni, en þá er hægt að slá út rofum og hleypa straum sérstaklega á Tungusveitina.

Í kjölfarið var netsambandslaust hjá þeim sem nota örbylgjukerfi Snerpu til að tengja sig netinu, m.a. í Tungusveit og á Drangsnesi, þangað til klukkan sjö í morgun. Var það vegna útsláttar á búnaði og rafkerfinu í Sævangi sem er mjög viðkvæmt fyrir spennufalli og rafmagnstruflunum. Í Sævangi er búnaður og sendir sem varpar örbylgjutengingunni frá Hólmavík á Drangsnes, en flestir notendur í Tungusveit sækja tenginguna í beinni sjónlínu til sendisins á Drangsnesi eða þá beint í loftnet í Sævangi.