02/05/2024

Allt gengur vel á Hamingjudögum á Hólmavík

Hamingjudagar á Hólmavík hafa farið afskaplega vel af stað. Einstaklega fallegt veður var í gær á Ströndum og Strandamenn njóta veðurblíðunnar aftur í dag. Heimamenn nýttu fimmtudaginn til að leggja lokahönd á skreytingar sem eru stór hluti af hátíðinni, en óhætt er að fullyrða að aldrei hafi verið jafn mikið skreytt og í ár. Hamingjufrömuðurinn Ásdís Olsen, sem er m.a. þekkt fyrir þættina Hamingjan sanna sem sýndir voru á Stöð 2 í vetur, stóð fyrir vinnustofu um hamingjuna í Félagsheimilinu sem var vel sótt.  Þá kom trúbadorinn Svavar Knútur akandi í góða veðrinu og spilaði lög fyrir heimilisfólk á Heilbrigðisstofnuninni auk þess sem hann hélt vel sótta tónleika í Hólmavíkurkirkju.

Í dag er fjöldi atburða á dagskrá Hamingjudaga og fólk er þegar byrjað að streyma í bæinn. Í kvöld spilar yngri kynslóðin knattspyrnu á polla- og pæjumóti og einleikurinn Skjaldbakan verður frumsýndur í Bragganum, en hann fjallar um einstakan atburð sem varð á Hólmavík árið 1963 þegar sæskjaldbaka var dregin á land.

Síðar um kvöldið verður síðan kvöldvaka á Klifstúni á Hólmavík þar sem m.a. verður haldinn hátíðarfundur sveitarstjórnar Strandabyggðar, Pollapönk spilar á tónleikum, brekkusöngsstemmning verður í hávegum höfð og síðast en ekki síst verður sett formlegt Íslandsmet í hópplanki þar sem reynt verður að fá sem flesta hátíðargesti til að planka saman. Afraksturinn verður síðan settur beint á internetið eins og sæmir vel heppnuðu planki.

Hamingjan

Svavar Knútur spilar fyrir heimilisfólk á Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík

frettamyndir/2011/640-hamfim3.jpg

Vinnustofa um hamingjuna undir stjórn Ásdísar Ólsen

frettamyndir/2011/640-ham-upph1.jpg

Ungir Strandamenn æfa sig fyrir hópplankið 🙂