14/12/2024

Ráðaleysi á Hólmavík fær nýtt hlutverk

Hafþór Þórhallsson handverksmaður og fyrrverandi kennari á Hólmavík stefnir að því að opna vinnustofu og verslun á vordögum. Hann hefur tekið á leigu hluta hússins Ráðaleysi sem stendur við Hafnarbraut á Hólmavík, í hjarta bæjarins. Hafþór hófst handa í morgun við að gera upp húsnæðið og segist lengi hafa stefnt að því að koma sér upp þvílíkri aðstöðu og nú sé draumurinn að rætast. "Kaupfélag Steingrímsfjarðar tók mjög vel í bón mína um að leigja mér húsnæðið og ætlar að leggja til efni til endurbyggingar á húsnæðinu, ég er því afar þakklátur fyrir það," segir Hafþór og sýnir tíðindamanni strandir.saudfjarsetur.is teikningu af húsinu eins og stefnt sé á að það líti út.

"Húsið var byggt árið 1929 af Riis-verslun og eftir því sem ég kemst næst þá hýsti það lengst af saltfiskvinnslu og vertíðarkallar bjuggu uppi á loftinu. Þeir voru frá Hellissandi og stunduðu kolaveiðar á Steingrímsfirði og söltuðu í tunnur. Þá stóð húsið við sjávarmálið". Húsið þjónaði sem geymsluhúsnæði fyrir Kaupfélag Steingrímsfjarðar í áratugi og í öðrum hluta hússins er beitningaaðstaða útgerðarfyrirtækisins Hilmis á Hólmavík. Stór vængjahurð var sett á húsið að framanverðu og í rýminu þar innan við var gærugeymsla í áratugi. Hafþór stefnir að því að vinnustofan og verslunin verði þar fyrir innan. "Burðarvirki allt sem eftir er mun halda sér og ég ætla að bæta við bitum sem hafa verið fjarlægðir. Svo klæði ég þetta bara að innan og einangra, kem inn rafmagni og hita og lífið hjá mér byrjar fyrir alvöru", segir Hafþór kampakátur og kappsfullur. "Það er mjög mikilvægt að meira líf færist í gamla miðbæinn á Hólmavík, en verið hefur mörg undanfarin ár, og gömlu fallegu húsin sem margir horfa á sem ónýtt drasl henta vel til þess". 

Hafþór stefnir að því að í maí-júni á næsta ári verði hann búinn að koma sér fyrir og opni handverksverslun fyrir gesti og gangandi í miðbæ Hólmavíkur. Húsið stendur næst við Galdrasafnið á Hólmavík og gegnt veitingastaðnum Café Riis og ætti að styðja við og hleypa meira lífi og fjöri í miðbæ Hólmavíkur í framtíðinni.


Gunnlaugur Bjarnason á tali við Hafþór í morgun um fyrirhugaða nýtingu á Ráðleysi

Rissteikning að fyrirhuguðu útliti hússins


Gærugeymslan eins og hún lítur út í dag. Þarna ætlar Hafþór að taka til hendinni í vetur og opna í vor glæsilega vinnustofu og verslun

Ljósm.: Sigurður Atlason