13/12/2024

Óskað eftir rjúpnavængjum

Rjúpnaveiðitíminn er hafinn og Náttúrufræðistofnun ætlar að safna rjúpnavængjum frá veiðimönnum líkt og undanfarin ár til að meta aldurshlutföll í hauststofninum. Veiðimenn, sem tilbúnir eru að taka þátt í þessari könnun, eru beðnir um að klippa annan vænginn af öllum rjúpum sem þeir fella. Fuglum af sama veiðisvæði eða úr sömu sveit ber að halda sér í poka þannig að hægt sé að sundurgreina sýnin eftir landshlutum.

Vængina á að senda á heimilisfangið: 

Náttúrufræðistofnun Íslands,
Pósthólf 5320,
125 Reykjavík.

Stofnunin mun greiða sendingarkostnað sé þess óskað. Menn eru beðnir um að láta nafn sitt og heimilisfang fylgja með sýnum þannig að hægt sé að senda þeim, sem það vilja, niðurstöður greininga úr þeirra sýni og heildarniðurstöðurnar í lokin.

Skýrslu um niðurstöður mælinganna frá veiðitíma 2005 má finna á slóðinni http://www.ni.is/pdf/06_003%20aldurshlutfoll_150.pdf.