16/10/2024

Netsambandslaust á Drangsnesi og við Steingrímsfjörð

Örbylgjusamband Snerpu við Steingrímsfjörð og á Drangsnesi hefur legið niðri síðan í fyrradag. Samkvæmt upplýsingum frá Snerpu er von á varahlutum í dag, en sendir mun vera bilaður. Vonast er til að samband verði komið á að nýju seinnipartinn í dag. Nokkuð hefur verið um bilanir á örbylgjusambandinu á Drangsnesi og víðar við Steingrímsfjörð og örbylgjusambandið er býsna óstöðugt að sögn Jóns Jónssonar framkvæmdastjóra Sögusmiðjunnar sem starfrækt er á Kirkjubóli og rekur m.a. vefinn strandir.saudfjarsetur.is

"Í rauninni má segja að það sé næstum ógerningur að reka fyrirtæki sem byggir starfsemi sína að hluta til á góðu netsambandi við þessar aðstæður eins og eru hér úti í sveit. Síðustu vikur höfum við verið að reyna að vinna að útgáfuverkefni sem er að nokkrum hluta unnið með upplýsingaöflun á netinu og með miklum netsamskiptum við samstarfsaðila og því er stöðugt og gott netsamband nauðsynlegt. Því fer fjarri að slíkt sé í boði hér við Steingrímsfjörð og það skapar oft mikla erfiðleika fyrir fyrirtækjarekstur. ADSL-tenging eða önnur háhraðatenging er ekki í boði og ég veit hreinlega ekki hvað er til ráða," segir Jón.