23/12/2024

Opinn fundur um GSM uppbyggingu á Vestfjörðum

Nýtt GSM mastur við Skötufjörð í DjúpiVodafone efnir til opins fundar um uppbyggingu GSM þjónustu á Vestfjörðum, í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, þriðjudagskvöldið 20. maí. Fundurinn er öllum opinn og hefst kl. 20:00. Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone, stýrir fundinum en sérstakur gestur verður Kristján L. Möller samgönguráðherra og ráðherra fjarskiptamála. Uppbygging á GSM kerfi Vodafone á Vestfjörðum er í fullum gangi og hefur GSM samband verið tryggt á mörgum svæðum sem ekki hafa notið slíkrar þjónustu þar til nú. Til að mynda er búið að kveikja á fimm nýjum sendum sem hafa áhrif á útbreiðslu sambandsins á Ströndum síðustu mánuði og enn er framundan að gangsetja senda á Bassastöðum og Kollafjarðarnesi.

Í fréttatilkynningu frá Vodafone vegna fundarins segir:

"Uppbyggingunni verður fram haldið næstu mánuði, en henni er ætlað að tryggja Vestfirðingum öruggt GSM samband á helstu þjóðvegum og langt á haf út. Vodafone er stolt af því að hafa tekið frumkvæðið í GSM uppbyggingu á svæðum sem hafa ekki notið slíkrar þjónustu áður, bæði á Vestfjörðum og annars staðar á landinu. Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. sem skráð er OMX Nordic Exhange á Íslandi. Starfsmenn Vodafone eru um 400 talsins og þjónusta viðskiptavini á heimilum og hjá fyrirtækjum um land allt með farsíma, síma, nettengingar og sjónvarp. GSM þjónusta Vodafone nær til 98% landsmanna og með samstarfi við Vodafone Group, eitt öflugasta fjarskiptafyrirtæki í heimi, er viðskiptavinum Vodafone tryggð örugg farsímaþjónusta um allan heim."