22/12/2024

Of hraður akstur, lamb og hundur

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um verkefni síðastliðinnar viku kemur fram að 6 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á
Ísafirði og nágrenni Ísafjarðar og sá sem hraðast ók, var mældur á 112 km/klst. Tvö minniháttar umferðaróhöpp sem skráð eru hjá lögreglu urðu í umdæminu og var í öðru tilfellinu ekið á
kyrrstæða bifreið á bifreiðastæði við
lögreglustöðina á Ísafirði. Er ekki vitað um tjónvaldinn. Ein líkamsárás var kærð til lögreglu í vikunni.

Á laugardaginn kom vegfarandi á lögreglustöðina á Ísafirði
með Border Collie hund, sem hann fann uppi á Holtavörðuheiði, blautan og
hrakinn. Umræddur hundur var ómerktur og lýsir lögregla eftir eigandanum. Ef menn geta gefið upplýsingar eru menn beðnir að hafa samband við lögregluna á
Vestfjörðum í síma 450-3730.

Síðastliðinn þriðjudag skildi óþekktur aðili
ómarkaða lambgimbur eftir í fundarsal bæjarstjórnar Vesturbyggðar á
Patreksfirði. Greiðlega gekk að handsama lambið og gerði lögregla viðeigandi
ráðstafanir vegna lambsins, eins og venja er þegar um ómarkað fé er að ræða.