14/09/2024

Jóla- og villibráðarveislur í Hótel Bjarkalundi

Frá því er sagt á reykholar.is að árlegar jóla- og villibráðarveislur séu framundan í Hótel Bjarkalundi og vissara að panta borð tímanlega. Veislur verða haldnar laugardagana 14. og 21. nóvember og fullvíst að mikið verður um dýrðir, en meðal þeirra dýrategunda sem á síðasta ári gáfu hráefni í
matinn voru hreindýr, selur, gæs, lundi og hrefna. Þá voru einnig á borðum
lambalæri og nautakjöt, ásamt laxi og síld og mörgu öðru. Með nýjum vegi um Arnkötludal opnast Strandamönnum meiri möguleikar á að taka þátt í mannfagnaði, uppákomum og veislum í Reykhólasveit og öfugt. Vefsíða Bjarkalundar er á slóðinni www.bjarkalundur.is.