23/04/2024

Námskeiðið Brautargengi hafið

Námskeiðið Brautargengi sem er kennt á Hólmavík í vetur og Impra-nýsköpunarmiðstöð stendur fyrir hófst fyrir nokkru. Um er að ræða nám fyrir athafnakonur sem vilja hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd. Þátttakendur á Ströndum eru átta talsins. Kaldrananeshreppur og Strandabyggð styrkja þátttakendur í námskeiðinu og kemur fram í nýjustu fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar að þar var samþykktur stuðningur upp á 15 þúsund á hvern þátttakenda með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Í Brautargengi læra þátttakendur um stefnumótun, vöru- og þjónustuþróun, markaðsmál, fjármál, stjórnun auk annarra hagnýtra atriða við stofnun og rekstur fyrirtækja. Á námskeiðinu er einnig farið sérstaklega í kynningu á persónueinkennum frumkvöðla og stjórnenda og hvað þeir þurfa að hafa til að bera til að ná árangri. Nánari upplýsingar má fá á þessari vefsíðu: http://www.impra.is/studningsverkefni/brautargengi/.