09/09/2024

Nærri 100 manns kepptu í hrútaþuklinu

IMG_6341

Afbragðsgóð mæting og ljómandi góð stemmning var á Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum sem fram fór á Sauðfjársetrinu á Ströndum á sunnudaginn. Þar reyndu hrútaþuklarar víðs vegar af landinu á hæfileika sína, bæði vanir og óvanir. Keppnin felst í að leggja mat á fjóra veturgamla kollótta hrúta af Ströndum, finna kosti þeirra og galla. Þátttaka var betri en nokkru sinni fyrr í keppninni sjálfri, 53 kepptu í flokki óvanra (sem raða hrútunum í röð og rökstyðja matið, oft á gamansaman hátt) og 41 í flokki vanra (sem gefa hrútunum stig fyrir ýmsa eiginleika eftir kúnstarinnar reglum sem bændur kunna). Um 500 manns mættu til að horfa á og upplifa þessa einkennilegu skemmtun Strandamanna.

 Einnig var í fyrsta skipti haldið svokallað þukleinvígi, þar sem stórleikararnir úr myndinni Hrútar, Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson, kepptu sín á milli í hvor væri flinkari hrútaþuklari og næði betra andlegu sambandi við sauðskepnuna.

Guðmundur Gunnarsson á Kjarlaksvöllum í Saurbæ fór með sigur á hólmi í flokki vanra þuklara og er því Íslandsmeistari í hrútaþukli árið 2015. Í öðru sæti í keppninni var Vilberg Þráinsson á Hríshóli í Reykhólahreppi, en í þriðja sæti var Bjarki Reynisson á Kjarlaksvöllum. Strandamönnum þykir sumum heldur verra að verðlaunapallurinn hafi alfarið verið skipaður utansýslumönnum að þessu sinni.

Í fyrsta sæti í flokki óvanra (þeirra sem stiga ekki hrútana) var Björg Helgadóttir frá Holti í A-Hún., í öðru sæti var Helga Gunnarsdóttir á Hólmavík (með Bjarnheiði Fossdal á Melum sem stuðningsfulltrúa) og í þriðja sæti varð Elínborg Birna Vignisdóttir á Hólmavík. Sérskipuð dómnefnd helstu hrútasérfræðinga landsins sá um dómgæsluna, ráðunautarnir Eyþór Einarsson, Jón Viðar Jónmundsson og Lárus Birgisson.

Einvígi þeirra Theodórs Júlíussonar og Sigurðar Sigurjónssonar sem leika Gumma og Kidda í kvikmyndinni Hrútar var kostulegt á að horfa. Þukluðu þeir hrútana með miklum tilþrifum og sendu hvor öðrum meinlegar athugasemdir inn á milli, við mikinn fögnuð áhorfenda. Þeir báru sig reyndar einstaklega fagmannalega að við þuklið og fengu mikið hrós frá dómnefndinni. Theodór hafði að lokum betur í þukleinvíginu, en hann var einn af fáum keppendum sem höfðu röðina á hrútunum nákvæmlega á hreinu.

Vegleg verðlaun fyrir góðan árangur á hrútadómunum voru gefin af Ferðaþjónustunni Heydal í Mjóafirði, SAH afurðum á Blönduósi, Ístex, Bændasamtökunum, Mjólkursamsölunni (MS), Malarhorn á Drangsnesi, Sauðfjársæðingastöð Vesturlands, Indriða á Skjaldfönn og Sauðfjársetri á Ströndum. Sigurvegarinn í keppninni og íslandsmeistari í hrútaþukli Guðmundur Gunnarsson varðveitir einnig í eitt ár farandgrip sem hagleiksmaðurinn Valgeir Benediktsson í Árnesi smíðaði úr hvalbeini og rekaviði. Hann gaf Búnaðarsamband Strandamanna fyrir áratug til minningar um Brynjólf Sæmundsson sem var héraðsráðanautur á Ströndum í meira en 40 ár.

Veglegt kaffihlaðborð var á boðstólum og ókeypis á allar sýningar Sauðfjársetursins í tilefni dagsins. Happadrætti var haldið á hrútadómunum, þar sem líflömb frá bændum á Ströndum voru í vinninga og aðeins dregið úr seldum miðum. Litprúðar lífgimbrar komu frá Drífu á Ósi og Barböru og Viðari í Miðhúsum, en vel byggðir kynbótahrútar frá Sigríði og Ragnari á Heydalsá, Jóni og Ernu á Broddanesi, Gunnari og Pálínu í Bæ í Árneshreppi og Indriða bónda á Skjaldfönn við Djúp. Allar vinningshafar voru á staðnum og gáfu sig fram þegar dregið var og fóru tvö líflömb til bænda á Ströndum, tvö á Vesturlandið og tveir vinningar fóru á höfuðborgarsvæðið, m.a. unnu tvö ung systkini sem eiga heima í 101 Reykjavík úrvals lambhrút.

IMG_6039 IMG_6062 IMG_6297 IMG_6333 IMG_6524 IMG_6569 IMG_7016

Hrútaþukl á Ströndum 2015 – ljósm. Trausti Rafn Björnsson, Angantýr Ernir Guðmundsson, Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir