04/10/2024

Myndir frá réttum í Bæjarhreppi

Leitað og réttað  var í tveimur réttum í Bæjarhreppi um síðustu helgi. Föstudaginn 17. var réttað í Kjörseyrarrétt. Þangað er smalað fé af sunnan verðri Laxárdalsheiði, efsta hluta Fjarðarhorns og Kvíslalandi og rekið norður heiðina og niður um Kjörseyrarland þar sem réttað er. Í þessa leit fara 6-10 manns. Farið er upp um kl. 7 að morgni og komið í réttina um miðjan dag. Þegar komið er niður þá fara leitarmenn í kaffi hjá Döggu á Kjörseyri áður en réttað er.  

Á laugardeginum 18. var svo svæðið milli Snjófannaás í suðri og Heydals í norðri leitað. Leitarmenn mætast við Hvalsá og er safnið rekið niður Hvalsárdalinn og til réttar á Hvalsá. Á þetta svæði fara um 20 leitarmenn, farið er af stað milli kl. 6 og 7 og komið til réttar við Hvalsá um miðjan dag. Óvenju margt fé var í báðum réttunum að þessu sinni og elstu menn sögðu aldrei verið fleira í Hvalsárétt en nú. Féð hélt sig ofarlega, enda um nógan gróður að ræða og virtist hann vera betri eftir sem ofar dró. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is var staddur í Hvalsárrétt, þar var góð stemming og margt var um manninn. Fólk kemur í réttir bæði til að sinna réttarstörfum og svo bara sér til skemmtunar, þar er fólk að hittast sem jafnvel sést ekki í annan tíma.

Réttarkaffið er ómissandi þáttur í réttarstemmingunni á Hvalsá. Kvenfélagið Iðunn í Bæjarhreppi hefur verið með kaffiveitingar til fjölda ára í kaffiskúrnum eins og hann er nefndur og stendur skammt frá réttinni og koma flestir þar við til að næra sig og spjalla. Fyrir nokkrum árum settu kvenfélagskonur salernisaðstöðu við kaffiskúrinn sem  er mikill munur frá kamrinum gamla sem þar var áður.

Mun minna er um að menn fái sér í tána nú en áður tíðkaðist, það var í mesta lagi einn sem eitthvað kvað að í þeim efnum að þessu sinni og hélt í heiðri þann gamla sið. Mjög margt var af fé vestan úr Dölum í Hvalsárrétt, og virðist sem aukning sé þar á ár frá ári. Mætti halda að grasið sé grænna Strandamegin. Veðrið var með eindæmum gott þennan dag og lék við menn og málleysingja.

Mikið var tekið af myndum frá réttunum og verða fleiri myndir birtar síðar á strandir.saudfjarsetur.is 

Ljósm. Sveinn Karlsson