29/04/2024

Yfirlit yfir veðrið í september 2007

Jón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík hefur tekið saman yfirlit um veðrið í september 2007 frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík í Árneshreppi. Mánuðurinn var úrkomusamur, vindasamur og umhleypingasamur í heild. Fyrsti snjór í fjöllum sást að morgni 11. sept. Úrkomulausir dagar voru 4 og úrkoman nokkuð yfir meðallagi eða 105,5 mm í mánuðinum. Mestur hiti var 15,2 stig þann 27. sept. en mest frost var -2,2 stig þann 25. Sjóveður var slæmt allan mánuðinn, oft vegna hvassviðra eða sjógangs. Kartöfluuppskera var misjöfn, léleg til sæmileg. Fé kom nokkuð vænt af fjalli, en eitthvað misjafnt eftir bæjum.

1-3: Norðlægar vindáttir eða breytilegar, kaldi í fyrstu síðan stinningsgola eða gola, rigning eða skúrir, hiti 7 til 10 stig.
4: Suðvestan hvassviðri eða stormur og rok um tíma, með miklum skúrum (hriðjum) hiti 10 til 17 stig
5-6: Hafáttir hægviðri, kul, súld eða rigning, hiti 8 til 11 stig.
7-8: Sunnan og suðsuðvestan, stinningskaldi síðan stinningsgola, súld eða rigning, hiti 7 til 15 stig.
9: Norðan gola rigning síðan smá súld og þokuloft, hiti 6 til 8 stig.
10: Sunnan stinningsgola, síðan suðvestan hvassviðri fram á kvöld, rigning síðan skúrir, hiti 6 til 11 stig.
11: Norðvestan stinningsgola í fyrstu síðan austan gola, smá skúrir, kólnaði í veðri hiti 4 til 6 stig.
12-13: Austan síðan norðan, allhvass eða hvassviðri,rigning,hiti 2 til 7 stig.
14: Suðlægar vindáttir hægviðri, kul, þurrt í veðri, hiti frá 5 stigum og niðrí frostmark.
15: Austan og norðaustan, kaldi og upp í allhvassan vind, þurrt í veðri, hiti 2 til 5 stig.
16: Norðan, stinningskaldi í fyrstu síðan stinningsgola, smá él um morguninn, hiti 2 til 3 stig.
17-18: Sunnan og síðan suðvestan, stinningsgola eða kaldi, rigningar vottur þann 17 annars þurrt, hiti frá -2 stiga frosti upp í 11 stiga hita.
19: Austlæg vindátt, gola eða stinningsgola, þurrt, heldur kólnar í veðri hiti 4 til 9 stig.
20-24: Norðaustan og síðan norðan, allhvass eða hvassviðri, súld, rigning og síðan slydduél og enn kólnar, hiti frá 6 niðrí 1 stig.
25: Suðlæg vindátt hægviðri, gola eða kul, þurrt, frost frá 2 stigum upp í 4 stiga hita.
26: Suðaustan í fyrstu síðan sunnan og hvessir seinnipartinn, gola í fyrstu síðan allhvass, rigning, skúrir, ört hlýnandi veður, hiti frá 3 stigum upp í 13 stig.
27-28: Sunnan og suðvestan, allhvass og hvassviðri, skúrir, hiti 9 til 15 stig.
29: Suðlæg eða breytileg vindátt, gola, rigning, hiti 10 til 12 stig.
30: Norðaustan, kul eða gola, rigning eða súld, þokuloft, kólnar verulega í veðri, hiti frá 10 stigum niðrí 3 stig.

Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.