22/12/2024

Mönnum bjargað af Steingrímsfjarðarheiði

Nú er skafrenningur á Steingrímsfjarðar- heiði samkvæmt vef Vegagerðarinnar og hálkublettir eins og víðar á Ströndum. Bílvelta varð í dag í Hrútafirði, rétt við Guðlaugsvík. Ófært er um Bjarnarfjarðarháls og norður í Árneshrepp. Í gær var vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði auglýstur ófær, en þrátt fyrir það kom um tíuleytið í gærmorgun beiðni um að leita að tveimur mönnum á fólksbíl á Steingrímsfjarðarheiði. Þeir lögðu af stað frá Ísafirði klukkan fimm um morguninn og voru ekki komnir fram.


Haft var samband við póstinn sem fór vestur um nóttina og sagðist hann hafa mætt fólksbíl í Sóleyjarhvammi  um áttaleytið um morguninn og reynt að stöðva bílinn, en það gekk ekki. Fimm björgunarsveitarmenn frá Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hólmavík fóru síðan af stað á tveimur jeppum kl 10:20 og fundu mennina við bíl sinn klukkutíma síðar heila á húfi og komu þeim til byggða.