15/04/2024

Meira af sjónvarpssendingum og háhraðaneti

Eftir því sem heimildir strandir.saudfjarsetur.is herma er ætlun Samgönguráðuneytis og Póst- og fjarskiptstofnunar að byggja upp háhraðanet fyrir alla bæi í dreifbýli, sama hvar þeir eru í sveit settir, og stefnt er að því að það verkefni verði komið vel áleiðis í árslok 2007. Fjármagn til verksins er tryggt og eru engir sveitabæir undanskildir. Um er að ræða mun öflugra netsamband en örbylgjusambandið sem nú er t.d. í notkun á Drangsnesi og sumum bæjum við Steingrímsfjörð.

Fjölmargir sendar verða settir upp í þessu skyni, en sjónlína er nauðsyn til að sendingar náist. Hins vegar er drægni kerfisins umtalsverð. Reiknað er með að bandbreidd verði aukin inn á Strandir samfara þessu, þó ekki liggi ljóst fyrir hvernig. Eins hefur komið í ljós að kort í Bændablaðinu sem hér var fjallað um í grein fyrir skömmu sýnir ekki útbreiðslu háhraðanets, heldur svæði þar sem úthlutað hefur verið leyfi til að byggja slíkt háhraðanet upp óháð því hvort það hefur verið gert eða ekki. Þar sem fjarskiptafyrirtækin sjálf standa ekki fyrir því verkefni mun Fjarskiptasjóður fjármagna verkefnið.

Varðandi sjónvarpssendingar Ríkissjónarvarpsins í gegnum gervihnött sem fjallað var um í frétt í gær, hefur komið í ljós að vandkvæði eru á að bæir sem standa að sunnanverðu í fjörðum og dölum undir fjallshlíðum geti tengst hnettinum beint. Þetta gildir um flesta bæi á Ströndum þar sem vandamál er með móttöku sjónvarpssendinga, t.d. í Bitrufirði, Kollafirði, Bjarnarfirði og Reykjarfirði. Hins vegar er að sögn manna ætlunin að leysa það vandamál með speglum eða jafnvel þannig að sjónvarpssendingunni sé miðlað með háhraðanetinu og fjármagnið til þess liggur fyrir.

Vafalaust er að Strandamönnum finnast þetta góð tíðindi, en flestir þeirra hafa þó lært af reynslunni og vanið sig á að fagna aldrei umbótum á þjónustu hins opinbera fyrr en þær eru orðnar að veruleika. Reikna má með svo verði einnig nú.