22/12/2024

Mamma keyrði útaf

Eins og fram hefur komið hér á strandir.saudfjarsetur.is hefur þjónustufyrirtækið Mamma verið í óðaönn að tengja Strandamenn við Digital Ísland undanfarna daga. Fulltrúar fyrirtækisins eru auðþekkjanlegir, enda keyra þeir um á smábílum sem eru kirfilega merktir fyrirtækinu. Síðustu tvo daga hefur verið nokkuð umhleypingasamt og dálítil hálka verið á götum Hólmavíkur. Mamma virðist ekki hafa búist við slíku leiðindafæri og meðlimir úr fjölskyldunni lentu því í örlitlum kröggum um miðjan dag í gær þegar einn bíll fyrirtækisins fór út af í brekkunni við Braggann, eftir misheppnaða tilraun til að komast upp á Borgabraut.

Engum varð meint af við óhappið og Þórður Sverrisson var skotfljótur að kippa bílnum upp úr skurðinum sem hann lenti í. Þá fengu börn á leikskólanum Lækjarbrekku ókeypis bíósýningu, en óhappið hefur án efa vakið mikla athygli hjá þeim. strandir.saudfjarsetur.is hvetja alla til að fara varlega í hálkunni og þá sérstaklega Mömmur á smábílum.

Mamma

frettamyndir/2007/500-mamma-i-vanda3.jpg

Ljósm. Kolbrún Þorsteinsdóttir