24/04/2024

Spjallað við Andra Snæ

Andri Snær Magnason rithöfundur er einn þeirra sem koma á Vaxtasprotafundinn í Sævangi á sunnudaginn. Erindi Andra Snæs fjallar um hin nýju hlunnindi sveitanna. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is sló á þráðinn til Andra fyrr í kvöld og innti hann eftir því hvert hans hlutverk væri á fundinum: „Mitt hlutverk er einhvers konar heilaþvottur. Þetta heitir hugleiðing um ný hlunnindi sveitanna. Hlunnindin felast þá í að menn nýta sér allt í kringum sig og blanda saman mörgum elementum,“ sagði Andri Snær.

 

„Allt hefur verið svolítið í kössum í sveitinni, t.d. ferðaþjónustan í einum kassa, söfnin í einum kassa, heilbrigðisþjónustan í einum og svo framvegis. Menningin, ímyndin, atvinnulífið og náttúran rennur ekki saman og það er jafnvel gagngert svoleiðis. Það verður til þess að menn sjá ekki möguleikana. Atvinnulífið gengur út á að leysa vandamál þannig að til verður vinna. Dæmi eru t.d. um að Þjóðverjar og Hollendingar búi við mikla ljósmengun, þessum ferðamönnum mætti bjóða myrkur sem ferðaþjónustu.“

Andri Snær segir að það virðist sem við getum ekki lengur geta lifað á gömlu hlunnindunum á jörðunum þó að fjöldi manns hafa getað það áður fyrr. Hlutverk landsbyggðarinnar hafi svolítið orðið að framleiða hráefnin fyrir borgarbúana en sambandið við þá hefur að sama skapi slitnað. „Ég veit til dæmis ekki hvaðan kjötið mitt kemur en ef jólin mín væru bundin við ákveðið svæði kæmi ég ef til vill líka við þar í sumarfríinu mínu. Vegna þess að jólin mín eru ekki bundin við ákveðinn bæ verður ekki til ferðaþjónusta í samhengi við það. Þar með verður ekki til ákveðin þekking í markaðssetningu og ekki nýjar hugmyndir sem spretta af því að ein grein styðji við aðra. Þetta er einhvers konar hálfspeki frekar en eitthvað konkret.“

„Á Ströndum hljóta að gefast óvenjulegir möguleikar og tækifærin að felast í mjög gömlum möguleikum. Afskekktasti staðurinn er kannski besti staðurinn og menn ættu að nýta sér það. Þetta mun ég viðra á fundinum, mitt fag sem rithöfundur er að raða saman gömlum orðum upp á nýtt og pakka þeim inn,“ sagði Andri Snær og gefur spjallið við hann fyrirheit um spennandi umræðuefni á fundinum.