10/09/2024

Leitaður Hvannadalur

Sunnudaginn 30. september sl. var leitaður sá víðfrægi og að mörgu leyti skemmtilegi Hvannadalur, sem á sumrin er friðsæll griðastaður sauðkinda en að hausti hrellir smalans. Ef marka má nafn þessarar dalskoru sem gengur fram úr Selárdal nánast beint í norður, hefur einhvern tíma verið þar ljúfara veðurfar en tíðkast nú um stundir og þar vaxið hvönn og aðrar ljúfar jurtir. Nú er þar nánast gróðurlaust að austanverðu í dalnum, enda eru þar nánast bara snarbrattar skriður og klettar. Að vestanverðu er nokkur beit í bröttum hlíðum, en ekkert er undirlendi í dalnum og eyrar engar, rétt pláss fyrir ána. Gras er gott það sem þó er og nokkuð víðiskotið og virðist lokka til sín jurtaætur, en þó nánast eingöngu þær ferfættu enn sem komið er, hvað sem verður.

Sá ágalli varð við sköpun þessarar dalskoru að beitin er nánast öll að vestanverðu, en eina leiðin til að koma fé niður úr dalnum er að austanverðu. Beggja megin eru svo kallaðar ófærur sem eru nánast ófærir klettar. Neðan við austari ófæruna er hægt að komast niður á Selárdal með fé, en oft er örðugt að reka yfir ána og það verður að gerast á réttum stað, annars getur illa farið. Að þessu sinni gekk það bærilega, þó sauðkindur sýndu vilja smalans lítinn skilning að venju. Að lokum bar þó þrjóska smalanna sauðþráan ofurliði og í ána urðu þessar 30 kindur að fara, þrátt fyrir fjörmikla og ákafa vörn þar sem lengi var óljóst hvort liðið færi með sigur, fjallafálur eða smalar.

Leitarstjóri í Hvannadalsleit er gamall nokkuð og góður fyrir sig, stoppar niður við Fremra-Hvanneyrargil og sigar smölunum í snarbratta hlíðina, þaðan sen leið þeirra liggur fyrst upp á brún og síðan fram í botn Hvannadals. Þangað eru þeir loks komnir eftir tveggja tíma göngu, en sjálfur er leitarstjórinn eins og kötturinn frægi sem fór sínar eigin leiðir og skröltir svo langt sem komist verður á leitarstjóraskrjóðnum, meðan hinir streða við gönguna, og segir ekki meir af því.         

1

Leitarstjóraskrjóðurinn kominn fram að Afréttargili.

bottom

Séð niður Selárdal af brún Afréttargils.

Séð austur yfir Selárdal. Búrfell fyrir miðri mynd og grillir í Kattarvatn í sömu stefnu, en til hægri er Háafell.

landbunadur/580-hvannadalur1.jpg

Þarna koma þær fyrstu!!! Séð fram Hvannadal frá Vestari Ófæru, en þar skal varna fénu að fara í ófæruna. Nú er betra að standa sig. Hvar er Kátur!!!

landbunadur/580-hvannadalur2.jpg

Hópurinn kominn að ánni.

landbunadur/580-hvannadalur4.jpg

Sverrir og Bjarki á brún Austari Ófæru senda hvatningu í talstöðina til þeirra sem eru niðri við ána.

landbunadur/580-hvannadalur6.jpg

Gegn vilja sínum urðu þær að vaða og ekki sáttar.

landbunadur/580-hvannadalur7.jpg

Að sigri unnum eru menn ógurlega þyrstir og nóg er af fjallavatninu.

landbunadur/580-hvannadalur9.jpg

Kátur að ösla til baka. Talstöðin sagði að kind væri undir klettunum við Vestari Ófæruna, fremur vont mál.

landbunadur/580-hvannadalur10.jpg

Eftir mikið bras og þras og sull tókst að koma rolluskjátunni niður í Selárdal, en myndatökur af því voru ekki leyfðar. Þetta er hins vegar foss í Hólagili þar sem það mætir Ófærugilinu, talsvert fríður en í fremur óhrjálegu umhverfi.

Rússneska stálið, með hamar og sigð, er fyrirtaks smalabíll. Fremra-Hvanneyrargil í baksýn.

– ljósm. Guðbrandur Sverrisson