03/05/2024

Ekið of hratt í nágrenni Hólmavíkur

Í fréttatilkynningu lögreglunnar um helstu verkefni í fyrstu viku október kemur fram að í vikunni voru fjórtán ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Flestir þessara ökumanna voru á ferð um þjóðveginn í nágrenni Hólmavíkur. Sá sem hraðast ók var stöðvaður á 127 km hraða á 90 kafla, en einnig var einn ökumaður stöðvaður á 124 km hraða á malarvegi þar sem hámarkshraði er 80 km. Báðir eiga væntanlega von á allhárri sekt.

Fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt á Vestfjörðum í vikunni. Þar af voru þrjár bílveltur þar sem ökumenn og farþegar slösuðust lítilsháttar. Á þriðjudaginn valt bifreið í Skálavík í Mjóafirði við Djúp. Tveir menn voru þar á ferð á pallbifreið sem valt út af veginum og skemmdist mikið. Í fyrstu var óttast að mennirnir væru mikið slasaðir en svo reyndist ekki vera. Ökumaðurinn er grunaður um ölvum við akstur.

Tvær bílveltur urðu á Ísafirði aðfaranótt sunnudagsins, en þá snjóaði í byggð og akstursskilyrði voru slæm. Ökumaður sem grunaður er um ölvun við akstur, velti bifreið sinni við Úlfsá í Skutulsfirði, og hafnaði bifreiðin í ánni. Meiðsl ökumanns, sem var einn í bifreiðinni, reyndust minniháttar. Þá valt bifreið þessa sömu nótt á Hnífsdalsvegi og má rekja óhappið til slæmra akstursskilyrða. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á sjúkrahús en reyndust ekki mikið slasaðir.

Í vikunni fengu eigendur nokkurra bifreiða sjö daga frest til að færa bifreiðar sínar til skoðunar. Viðvörun þessa efnis var límd á 17 bifreiðar á eftirlitssvæði lögreglumanna á Patreksfirði og 14 bifreiðar á Ísafirði Á laugardaginn var bifreið stöðvuð við reglubundið eftirlit á Ísafirði og reyndist ökumaður hennar hafa verið sviptur ökuréttindum. Við leit í bifreiðinni fannst lítilræði af hassi sem ökumaðurinn viðurkenndi að eiga. Sömu nótt hafði lögreglan afskipti af unglingasamkvæmi sem haldið var í húsi í nágrenni Ísafjarðar. Af þessu tilefni var lögreglan í samskiptum við forráðamenn 12 ungmenna vegna ölvunar þeirra eða brotum á reglum um útvistartíma.