25/04/2024

Þakkir og kveðjur til Strandamanna

Aðsend grein: Arnheiður Guðlaugsdóttir, Miðhúsum.
Þegar ég nú kveð Strandir eftir sjö góð ár er mér efst í huga þakklæti til fólksins fyrir viðkynninguna góðu. Sérstakar þakkir eru til nágranna minna hér í fyrrum Broddaneshreppi sem sýndu mér hlýhug og hjálpsemi á þungum dögum á fyrri hluta þessa árs. Það var óverðskuldað og gleymist ekki. Falleg og uppörvandi orð og setningar sem gáfu mér aftur trú á lífið verða gott veganesti til nýs framtíðarlands.

Góður nágranni sagði við mig að sennilega hefði ég búið á Ströndum í fyrra lífi svo fljótt varð mér sveitin kær og fólkið sem hér býr. Hann tók það þó fram að ekki hefði ég verið smali og vísaði með því góðlátlega til að ekki mundi ég sigra í langhlaupi. En lífið er að sönnu langhlaup og hver veit nema að tíminn leiði mig aftur á Strandir, en – hér bundu mig tryggðir við dýr og við gras eins og skáldbóndinn Guðmundur Ingi Kristjánsson kemst svo vel að orði.

Nýjum eigendum Miðhúsa, fyrrum sveitungum mínum úr Borgarfirðinum, fylgja góðar óskir til starfa á þessum einstaka stað. Það var mikil blessun fyrir þessa sveit að fá gott fólk sem vill búa með dýr en missir Borgfirðinga verður að sama skapi mikill.

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín …
(Megas)

Kærar kveðjur og þakkir,
Arnheiður Guðlaugsdóttir, Miðhúsum

500-arnheidur

Með Ljúfu á vordögum 2007