01/05/2024

Málefni hitaveitu

300-holmavik-yfirmyndAðsend grein eftir Magnús H. Magnússon og Gunnar Jóhannsson
Vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur í kjölfar greinar sem við birtum á strandir.saudfjarsetur.is og vef Jóns Halldórssonar, langar okkur að koma eftirfarandi á framfæri. Þegar sveitarstjóri Strandabyggðar nefnir 430 milljónir sem áætlaðan kostnað, er hún að vitna í skýrsu Fjarhitunar sem gerir ráð fyrir að lögð verði leiðsla frá Hveravík inn að Sandnesi og þar yfir fjörð og þaðan til Hólmavíkur. Þessi leið er ca. 8,5 km en við teljum að hægt sé að styttra leiðina í ca. 5-6 km.

Þess er heldur ekki getið  að þegar ráðist er í hitaveituframkvæmdir er upphæð sem samsvarar 8 ára niðurgreiðslu á raforku til húshitunar á Hólmavík, greidd til verkefnisins, ca 90 miljónir. Margt fleira má tína til  sem við töldum að mætti skera niður, en sú tala sem við vorum að kynna fyrir sveitarstjórn Strandabyggðar sem kostnaðartala við verkefnið var á bilinu 204-221 milljón.

Einhver misskilningur er á ferðinni varðandi fjármögnun á hitaveitunni. Það hefur aldrei hvarlað að okkur að Strandabyggð fjármagnaði þessa framkvæmdir með skatt og þjónustutekjum sínum næstu áratugina. Eins og kom fram í fyrra bréfinu töldum við áríðandi að velta fyrir sér eignarhaldi á slíku fyrirtæki og töldum best að það væri í höndum Hólmvíkinga sjálfra og áttum þá að sjálfsögðu bæði við einstaklinga og fyrirtæki, og þeirra væri þá að sjá um fjármögnun verkefnisins.

Það álit okkar að hægt væri að lækka húshitunarkostnað um 20-30% var ekki með neinum bakreikningi þar sem greitt væri sérstakt aukagjald til eigenda Hveraorku ehf.

Það er hinsvegar ljóst að að það fer enginn út í stofnun og rekstur hitaveitu nema hafa samþykki og samstarfsvilja viðkomandi sveitarstjórnar í málinu því það eru margskonar skipulagsmál o.fl.,
sem þarf að fara í gegnum stjórnkerfi sveitarfélagsins til að málin gangi upp.

Magnús H. Magnússon
Gunnar  Jóhannsson