05/12/2024

Byggðastofnun deyfð af Framsóknarflokknum

Aðsend grein: Sigurjón Þórðarson
Bág fjárhagsstaða Byggðastofnunar hefur verið talsvert í umræðunni í kjölfar þess að stjórn stofnunarinnar ákvað að hætta öllum lánveitingum.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar vissu af skýrslu um stofnunina, skýrslu sem ekki var farið að ræða, og um hana var beðið. Eftir nokkra eftirgangsmuni tókst að draga skýrslu um framtíðarþróun Byggðastofnunar út úr iðnaðarráðuneytinu. Efni skýrslunnar hefur ekki enn sem komið er fengið mikla athygli í fjölmiðlum og ég er á því að fjölmiðlar hafi í umfjöllun sinni hlaupið yfir þá miklu gagnrýni sem er að finna í skýrslunni á frammistöðu Framsóknarflokksins í byggðamálum.

Í skýrslunni kemur fram að starfsmenn og stjórnendur Byggðastofnunar hafi skilað góðu starfi en að skipulagi og hlutverki í stjórnkerfinu sem er á ábyrgð Valgerðar Sverrisdóttur sé verulega ábótavant. Sérstaklega er rakið að stjórnvöld hafi ekki nýtt krafta stofnunarinnar sem skyldi við almenna stefnumótun stjórnvalda. Í skýrslunni eru rakin raunaleg átök Kristins H. Gunnarssonar, sem gegndi starfi stjórnarformanns Byggðastofnunar, og fyrrum forstjóra sem settu innra starf stofnunarinnar í uppnám.

Í umfjöllun um stjórn Byggðastofnunar kemur fram gagnrýni á að hún sé of fjölmenn og einnig þá staðreynd að vafasamt sé að setja starfandi stjórnmálamenn í stjórn stofnunarinnar. Það er sagt ýta undir grunsemdir og ásakanir um að pólitísk sjónarmið ráði ákvörðun í einstaka málum í stað faglegra sjónarmiða þar sem jafnræðis væri gætt.

Það er hægt að taka undir margt í skýrslunni. Ég er á því að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafi einmitt ekki viljað að stofnunin væri með frumkvæði, hvað þá að hún fjallaði gagnrýnið um vonda stefnu í byggðamálum.

Ég efast til dæmis um að fulltrúar þessara flokka hafi fagnað skýrslum og álitum um hið vonda kvótakerfi sem hefur lamað sjávarbyggðirnar en þó eru til dæmi um að einstaka skýrsluhöfundar hafi slysast til að fjalla um þau mál. Ábyggilega hafa þeir fengið bágt fyrir.

Ég hef einhvern tímann sagt að landsbyggðin þarfnaðist málsvara í kerfinu. Í umfjöllun í þinginu koma fram kröftug álit frá Náttúrufræðistofnun sem ég er ekki alltaf sammála en er engu að síður sáttur við.

Í álitum Náttúrufræðistofnunar er oft gefið sterklega í skyn að ákveðin lagasetning geti verið afdrifarík fyrir ákveðna dýrategund, t.d. rjúpuna. En þessu er ekki að heilsa með álit Byggðastofnunar þar sem flokkspólitísk stjórn virðist veikja þá rödd sem berst frá Byggðastofnun um ýmsar vafasamar ákvarðanir stjórnvalda, s.s. vonda fiskveiðistjórn, hækkun flutningskostnaðar og hækkun rafmagnsverðs.

Ég vona svo sannarlega að iðnaðarráðherra svari ekki gagnrýninni sem fram kemur í skýrslunni með því að segjast einfaldlega vera ósammála henni, heldur taki mark á gagnrýninni og leiti leiða til þess að auka sjálfstæði stofnunarinnar, efli hana eins og þarf. Athyglisvert er að skýrslan kom út í byrjun maí og af því má ráða að ráðherra byggðamála hafi alls ekki viljað að þessi gagnrýni kæmi fyrir sjónir almennings. Þetta vekur upp þær spurningar hvort ráðherrann sitji á fleiri skýrslum, s.s. um jöfnun flutningskostnaðar.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins
www.sigurjon.is