05/10/2024

Viðar Guðmundsson skipar 3. sæti V-listans

Grein eftir Viðar Guðmundsson
Ég undirritaður, Viðar Guðmundsson, skipa 3. sæti framboðslista V-listans í Strandabyggð fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ég er nýbúi á Ströndum og því rétt að ég reki aðeins slóð mína frá vöggu til Stranda, til að þið kjósendur fáið smá hugmynd um hver ég er. Ég er uppalinn á Kaðalsstöðum í Borgarfirði, ættaróðali fjölskyldu minnar í hátt í 150 ár. Ég er Húsfellingur að ætterni sem útskýrir listhneigð mína og sérvisku. Aðrir gallar deilast á forfeður mína úr öðrum áttum.

Menntun og fyrri störf

Mín menntun er fyrst og fremst í tónlist. Ég er píanó- og orgelleikari. Stundaði nám á tónlistarbraut við Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi, stundaði píanónám hjá Ingibjörgu Þorsteinsdóttur og Doktor Jerzy Tosik Warzawiak við Tónlistarskóla Borgarfjarðar og orgelnám hjá Douglas Brotchie við Tónskóla þjóðkirkjunnar.

Meðan ég bjó í Borgarfirði starfaði ég við ýmislegt, vann í gróðurhúsum, keyrði rútu og skólabíl, vann við fjárflutninga, á bílaklæðningaverkstæði, vann ásamt föður mínum sem „féhirðir“ fyrir Vegagerðina og Skógrækt ríkisins, en fyrst og fremst sem tónlistarkennari, organisti og bóndi. Einnig kom ég víða fram á þessum tíma sem hljóðfæraleikari innanlands sem utan. Spilaði meðal annars í Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Tékklandi, Austurríki, Kanaríeyjum og Færeyjum.

Í dag er ég bóndi í Miðhúsum í Kollafirði og tónlistarkennari og organisti hér á svæðinu og stjórnandi Karlakórsins Söngbræðra í Borgarfirði. Ég og mín fjölskylda unum okkur vel hér á Ströndum og samfélagið hefur tekið mjög vel á móti okkur.

Öflugt menningarlíf og sérstaða sveitarfélagsins

Strandabyggð er gott sveitarfélag. Innviðir sveitarfélagsins eru margir hverjir góðir og fjárhagsleg staða er talsvert betri en í mörgum sveitarfélögum þó það sé nú ofsagt að segja að hún sé góð. Hér býr kraftmikið fólk og duglegt. Við erum með góða skóla, mannaða með mjög hæfu fólki. Menningarlíf hér á svæðinu er að mínu mati mjög öflugt og sennilega er leitun að jafn viðburðaríku og fjölbreyttu menningarlífi í jafn litlu sveitarfélagi. Hér er öflugur landbúnaður sem hefur nokkra sérstöðu á landsvísu, sökum hreinleika gagnvart sauðfjársjúkdómum.

Þó margt sé gott í okkar litla samfélagi, þá eru líka ýmis atriði sem þarf að hlúa betur að. V-listinn hefur gefið út veigamikla málefnaskrá þar sem við kynnum okkar stefnumál og mögulegar úrbætur á því sem við teljum að megi betur fara. Stefnuskráin er að mínu mati mjög raunsæ, því hún er í takti við stöðu efnahagsmála eins og þau eru í dag eftir mikinn brotsjó í fjármálaheiminum.

Við viljum styrkja og bæta samfélagið

Við á V-listanum erum ekki að lofa upp í ermina á okkur dýrum og stórum nýframkvæmdum heldur viljum við leitast við að styrkja og bæta það sem fyrir er. Eins eru margar nýjar hugmyndir um hvernig megi bæta samfélagið. Mjög mörg okkar stefnumála eru mjög ódýr í framkvæmd, en geta engu að síður haft mikil áhrif sé vel að þeim staðið. Ég hvet kjósendur til að kynna sér stefnuskrá V-listans. Jafnframt hvet ég kjósendur til að mæta á kjörstað og nýta atkvæðisréttinn. Hvor kosturinn verður fyrir valinu er svo í ykkar höndum.

Viðar Guðmundsson,
skipar 3. sæti á V-listanum í Strandabyggð