05/05/2024

Að fara mikinn án tilefnis

Aðsend grein eftir Ásdísi Leifsdóttur.
Eftir lestur aðsendrar greinar Magnúsar H. Magnússonar og Gunnars Jóhannssonar tel ég mig knúna til að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri: Þegar verið er að athuga framkvæmd sem kostar a.m.k. 430 milljónir kr., sé miðað við áætlaðan kostnað Fjarhitunar og styttri (ódýrari) leiðin farin en 664 milljónir sé lengri (dýrari) tekin, þá væri það undarleg vinnubrögð hjá sveitarstjórn og sveitarstjóra Strandabyggðar að leita ekki eftir upplýsingum frá öllum þeim aðilum sem þekkingu, reynslu og vit hafa á slíkum veitum áður en ákvörðun um framkvæmd er tekin. Og það skal tekið fram að í þessum kostnaðartölum vantar t.d. greiðslur til Hveraorku ehf. fyrir vatnið svo gera má ráð fyrir enn meiri kostnaði en þarna kemur fram en búið er að núvirða tölur sem koma fram í skýrslu Fjarhitunar frá haustinu 2008.

Í ljósi þess er ekki undarlegt að talað sé við meðal annarra stjórnendur Orkubús Vestfjarða til að afla upplýsinga, ég veit ekki betur heldur en bæði Magnús og Gunnar hafi gert slíkt hið sama á sínum tíma. Og svo það fari ekki á milli mála þá er sveitarstjórn og sveitarstjóri ekki svo skyni skroppin að þau geri sér ekki grein fyrir að þau séu að tala við aðila sem hafa ákveðinna hagsmuna að gæta, rétt eins og eigendur Hveraorku hafa heldur betur líka af málinu, og því lögð sérstök áhersla á að allar hliðar málsins verði skoðaðar og rætt við mun fleiri fagaðila áður en ákvörðun er tekin um áframhald. Þetta kallast vönduð og fagleg vinnubrögð þegar verið er að ráðstafa skatt- og þjónustutekjum íbúa Strandabyggðar næstu áratugina í það minnsta.

Þar sem ég hef ekki séð grein þá sem vitnað er til í Fréttablaðinu, er erfitt fyrir mig að svara því sem þar kemur fram enda hefur enginn frá Fréttablaðinu haft samband við mig varðandi málið. Hver þeirra túlkun er á því sem fram kemur í skýrslu sveitarstjóra er á þeirra ábyrgð þar sem ekki var haft samband við mig né þá sem sitja í sveitarstjórn, svo ég viti, til að fá upplýsingar eða skýringar. En það gera hvorki Magnús né Gunnar svo sem heldur, það er að leita upplýsinga, áður en farið er mikinn með greinaskrifum, þar sem þeir sjá ástæðu til að vega að minni persónu. Eina viðtalið sem tekið hefur verið við mig vegna málsins birtist í Morgunblaðinu 8. apríl s.l. þar sem greint er frá því að ég sé áhugasöm um verkefnið eftir að hafa haft það til skoðunar í tæpan sólarhring.

Og mikill er máttur minn, ég segi ekki annað. Það mega teljast merkileg og fagleg vinnubrögð hjá Orkusjóði að hafna Hveraorku um styrk á þeirri forsendu að ég telji alla Hólmvíkinga hamingjusama með núveranda fyrirkomulag. Þvílík firra að láta eitthvað jafn fráleitt eins og þessa fullyrðingu frá sér fara og ætlast til að því sé trúað. Og hafi þeir fengið önnur eins svör frá Orkusjóði þá spyr ég einfaldlega, afhverju höfðu þeir þá ekki samband við mig til að fá staðfestingu á slíkum ummælum. Ég veit það eitt að ekki hefði ég tekið því þegjandi að fá neitun byggða á munnlegum skoðunum einnar persónu, hvort sem sú persóna sé titlaður sveitarstjóri eður ei, og krafist þess að fá skriflega staðfestingu frá báðum aðilum.

Að endingu vil ég að skýrt komi fram að sem íbúa og fasteignaeiganda hér í Strandabyggð er mér svo sannanlega annt um hagsmuni mína sem og annarra sem hér búa, óháð því hvort ég er sveitarstjóri eða ekki. Ég vona að alltaf veljist til starfsins aðili sem gætir minna hagsmuna sem og allra íbúa Strandabyggðar og tryggi lífsgæði okkar eins og framast er unnt. Og mikið er það nú gott að Magnús og Gunnar skuli bera hagsmuni mína, sem íbúa á Hólmavík, svo mjög fyrir brjósti eins og fram kemur í þeirra grein. En ef þeir halda að í því felist að rokið sé upp til handa og fóta og ráðist í framkvæmd af þessari stærðargráðu án þess að kanna vel málið fyrst, þá fara þeir villu vegar. Ég tel okkur í Strandabyggð eiga betra skilið en svo þó það þjóni ekki þeirra hagsmunum í þetta skiptið. Og að endingu tel ég rétt að benda á að þeir eru búnir að vera með verkefnið í nokkur ár en sveitarstjórn fékk fyrstu kynningu af verkefninu fyrir tæpum mánuði síðan.

Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar