26/04/2024

Já, veglagning um Arnkötludal er bráðnauðsynleg

Aðsend grein: Sturla Böðvarsson.
„Veglagning um Arnkötludal er bráðnauðsynleg.” Undir þessari fyrirsögn skrifar sá ágæti maður Guðmundur Björnsson, fyrrverandi flutningabílstjóri frá Hólmavík, grein í  Morgunblaðið fyrir skömmu. Hann færir rök fyrir því að þessi vegur sé mikilvæg samgöngubót fyrir Strandamenn og Vestfirðinga. Allt er það rétt og satt.  Ég vil bæta því við að þessi umrædda leið er einnig til hagsbóta fyrir íbúa í Reykhólasveit og Dalasýslu. Í greininni segir Guðmundur: „Þótt ótrúlegt megi virðast þá er ekki búið að ákveða hvort eða hvenær ráðist verður í þessa þörfu vegalagningu um Arnkötludal og Gautsdal en vonandi verður það sem fyrst því þetta er hvorki dýr né flókin framkvæmd.” Svo mörg voru þau orð. Um þessar hugleiðingar vil ég segja eftirfarandi, um leið og ég vil upplýsa lesendur um að það er búið að taka ákvörðun um þessa vegalagningu; Vegur um Arnkötludal verður lagður.

Það er í verkahring samgönguráðherra að hafa um það forystu að fá afgreidda samgönguáætlun á Alþingi sem Vegagerðin vinnur síðan að. Gilda um það sérstök lög. Jafnframt er það hið vandasama og oft vanþakkláta verkefni samgönguráðherra að ná sátt um það hvernig fjármunum er skipt milli þeirra mörgu verkefna í samgöngumálum, sem nauðsynlegt er að vinna að á hverju áætlunartímabili.
Um allt land er kallað eftir samgöngubótum. Og er ekki síst gerð krafa um verulegar og auknar framkvæmdir í mesta þéttbýlinu. Um það vitna stöðugar umræður í fjölmiðlum og háværar kröfur sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu. Þegar kom að því að endurskoða samgönguáætlun að þessu sinni var ljóst að fjármunir voru verulega minni en vonir stóðu til og fjarri því svo miklir sem nauðsynlegt væri til þess að ná fram á næstu fjórum árum öllum þeim verkefnum sem við blasa. Það var því nauðsynlegt að forgangsraða þeim verkum sem við blasti að væri hagstætt að leggja fjármuni í. Þau verkefni, sem ljóst var að samstaða væri um að ættu að njóta forgangs á Vestfjörðum, voru áframhaldandi vinna við endurbyggingu Vestfjarðavegar og að ljúka við veg um Djúpið. Þessar meginleiðir voru fremstar í forgangsröð sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum.Við afgreiðslu samgönguáætlunar lagði ég áherslu á annars vegar að tryggja fjárveitingar til þess að ljúka Djúpinu og ná verulegum áfanga við Vestfjarðaveginn á áætlunartímabilinu, en jafnframt tryggja að framkvæmdir hæfust við veg um Arnkötludal. Þessa stefnumörkun samþykkti Alþingi. Sem samgönguráðherra hef ég því tryggt að vegur verður lagður um Arnkötludal og Gautsdal. Áhugamenn um þessa vegalagningu  verða að gera sér grein fyrir því að slík ákvörðun hafði ekki verið tekin áður. Vinna áhugamannafélagsins Leiðar var ekki í samræmi við samþykkt Alþingis og engin trygging var fyrir því að farið yrði í þá framkvæmd fyrr en nú að fjárveiting hefur fengist og verkið sett á samgönguáætlun. Næstu skref verða þau að Vegagerðin mun nú hefja hönnun vegarins og gerð útboðsgagna þannig að hann verði tilbúinn til útboðs á árinu 2007. Framkvæmdir munu hefjast ekki seinna en árið 2008. Sem samgönguráðherra hef ég heimilað vegamálastjóra að ganga til samninga við forsvarsmenn Leiðar um að taka yfir þá undirbúningsvinnu sem þeir hafa lagt í og greiða þann kostnað sem fallið hefur til. Mun starf Jónasar Guðmundssonar talsmanns Leiðar þannig að fullu nýtast og flýta fyrir  því að framkvæmdir geti hafist.Við afgreiðslu gildandi samgönguáætlunar var gerð mjög hörð hríð að samgönguráðherra af ýmsum þingmönnum og borgarfulltrúum. Töldu þeir  að samgönguráðherra drægi um of taum síns kjördæmis. Í greinaskrifum í blöðum og  netfjölmiðlum, sem haldið er úti  á Vestfjörðum og Ströndum, hef ég ekki séð þeirri umræðu gerð skil. Því hefur hinsvegar verið haldið ótæpilega á lofti að tillögur samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar, væru ekki í samræmi við ítrustu óskir Vestfirðinga. Ég hef skynjað það mjög sterkt að sá málflutningur hefur verið stundaður af pólitískum ástæðum. Enginn af því svæði hefur skotið skildi fyrir samgönguráðherrann, sem hefur á sama tíma legið undir stöðugum árásum fyrir þær meintu sakir að hygla íbúum Norðvesturkjördæmis með miklum vegaframkvæmdum á kostnað höfuðborgarsvæðisins. Hefur því m.a. verið haldið fram að í kjördæmi samgönguráðherra væru allir vegir malbikaðir nema slóðar upp á jöklana. Hefur það verið haft til marks um hversu höfuðborgarsvæðið væri sett til hliðar í vegagerð af samgönguráðherranum. Vissulega er ég ánægður með mörg mikilvæg verkefni sem hefur verið lokið við, m.a. á Vestfjörðum, frá árinu 1999 þegar ég tók við sem samgönguráðherra.

Að lokum vil ég undirstrika að þrátt fyrir að mörgum finnist hægt ganga við uppbyggingu vegakerfisins í landinu þá hefur ekki í annan tíma verið sett meira fjármagn til samgöngumála en þann tíma sem undirritaður hefur setið í stóli samgönguráðherra. Það á við um vegagerð, hafnargerð og uppbyggingu flugvalla og flugöryggiskerfa.  Allt er það til mikilla hagsbóta fyrir landsbyggðina og þá ekki síst Norðvesturkjördæmi, sem betur fer.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra
www.sturla.is