06/05/2024

Hingað og ekki lengra

Aðsend grein: Sigurjón Þórðarson
Það dylst engum sem fer um sjávarbyggðir landsins að kvótakerfið hefur leikið byggðirnar grátt. Kerfi sem upphaflega var komið á til þess að byggja upp þorskstofninn. Það markmið hefur ekki gengið eftir enda vafamál hvort að þessi uppbyggingarfræði standi á traustum grunni. Staðan nú eftir 20 ára svokallað uppbyggingarstarf er að þorskaflinn nú er aðeins helmingur þess sem hann var fyrir daga kvótakerfisins.

Sjávarbyggðirnar hafa áratuga reynslu af ömurlegri stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Af ræðu formanns Samfylkingarinnar á LÍÚ þinginu virðist vera sem að sá flokkur sé að taka undir stefnu ríkisstjórnarinnar í fiskveiðimálum. Það er því deginum ljósara að til þess að koma á réttlátu og skynsamlegri fiskveiðistjórn þá þarf að efla Frjálslynda flokkinn.

Málflutningur sjávarútvegsráðherra er algerlega óskiljanlegur þessa daganna, ef hann er borinn saman við málflutning sama manns í gegnum árin. Fyrir kosningar hefur frambjóðandinn sem nú gegnir ráðherrastöðu boðað að hann myndi ekki styðja ríkisstjórn sem viðhéldi óbreyttu kvótakerfi.

Samt sem áður hefur hann æ ofan í æ stutt breytingar þess til hins verra.  Þessi sami maður boðaði fyrir síðustu kosningar að staðið yrði vörð um sóknarkerfi minnstu handfærabáta landsmanna og þar áður að þorskaflahámarkskerfinu væri sérstaklega ætlað að styðja við rétt hinna smærri sjávarbyggða. Hann hefur staðið að því að leggja hvort tveggja niður.

Öll framangreind loforð hefur sjávarútvegsráðherra svikið og ekki nóg með að svo sé heldur telur nýi sjávarútvegsráðherrann að það sé mikil sátt í sjávarútveginum og engu þurfi að breyta. Allt leiðir þetta líkum að því að sjávarútvegsráðherra hafi ekki meint eitt né neitt með málflutningi sínum í gegnum tíðina. Hann hafi einfaldlega leikið tveim skjöldum til þess að blekkja kjósendur til fylgis við sig og Sjálfstæðisflokkinn.

Sjávarútvegsráðherra kennir sig stundum við Vestfirði og er því rétt að fara yfir hvernig verk hans sem hann er afar sáttur við hafa leikið Vestfirðinga. Á þessu kjörtímabili studdi hann eins og áður segir kvótasetningu á handfæratrillum. Þess ber að geta að hann var ekki eini Vestfirðingurinn sem studdi þetta óhæfuverk gagnvart byggðunum þar sem þingmennirnir Einar Oddur Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson studdu það með ráð og dáð með skilyrðislausum stuðningi við ríkisstjórnina.

Í Morgunblaðinu þann 19. október sl. segir frá því að í kjölfar kvótasetningar á trillunum hafi aflaheimildir streymt frá útgerðum á Vestfjörðum. 1.840 tonn hafa farið úr landshlutanum en það svarar til þess að velta vestfiskra útgerða skerðist um 250 milljónir króna. Það er enn ískyggilegra að bera saman landaðan þorsk afla á mánuðunum  á árinu 2004 og á þessu ári. Þær bera með sér að það var 4.000 tonnum minna landað af þorski  á Vestfjörðum  á tímabilinu janúar til september í ár, en á sama tímabili á í fyrra, sem var vel að merkja síðasta árið sem sóknardaga kerfið var við lýði. Þetta svarar til þess að verðmæti landaðs afla á Vestfjörðum hafi minnkað um 500 milljónir króna.

Þetta eru mjög háar upphæðir sérstaklega í samanburði við þær lágu upphæðir sem fylgja svokölluðum Vaxtasamningi Vestfjarða en það eru nokkrir tugir milljónir á margra ára tímabili.

Er ekki orðið tímabært að Vestfirðingar segi hingað og ekki lengra og gangi í Frjálslynda flokkinn?