01/05/2024

Góður varnarsigur Djúpmanna

Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður VG
Á vef Bæjarins Besta nýverið greinir sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, Ómar Már Jónsson frá samkomulagi sem náðst hefur við Íslandspóst og Samgönguráðu-neytið um póstburð, almennings-samgöngur og ýmsa aðra þjónustu við Ísafjarðardjúp. Þeim niðurstöðum sem þar er greint frá ber að fagna.

Grunnþjónusta við byggðina

Ég hef áður lýst því í grein um þetta mál  að miðstýring og fjarlægð stjórnenda fyrirtækja og þjónustustofnana frá því samfélagi sem þeim er ætlað að þjóna er ein mesta ógn við hinar dreifðu byggðir til sjávar og sveita. Einkavæðing almannaþjónustu sem rekin er áfram af  blindri peningahyggju og gróðafíkn kemur sérstaklega hart niður á íbúum í strjálbýli. Lífsgildi og hugtök eins og  greiðasemi eða innri samfélagsvitund og félagshyggja eiga undir högg að sækja í því stjórnarfari sem nú ríkir.

Frammi fyrir þessu stóðu íbúarnir við Ísafjarðardjúp á síðustu dögum nýliðins árs þegar skera átti niður samþætta þjónustu sem tengd var póstburðinum við Djúpið.

Heimamenn bregðast hart við

Niðurskurður á þjónustu við Djúpmenn  átti að skella á fyrirvaralaust þannig að íbúarnir stæðu frammi fyrir gerðum hlut  og fengju enga rönd við reist.  Þessi aðferð í að skera niður þjónustu er þekkt. Er skemmst að minnast uppsagna starfsfólks og lokun stöðva Símans á Ísafirði, Blönduósi og Siglufirði.

Sem betur fór spurðust niðurskurður þjónustunnar við íbúana við Íafjarðardjúp út nokkrum dögum áður en hann átti að koma til framkvæmda. Íbúarnir brugðust hart við og mótmæltu kröftuglega og fengu í lið með sér þingmenn kjördæmisins, fjölmiðla og fleiri til að berja skerðingu þjónustunnar til baka. Eins og fram kemur í pistli sveitarstjórans á Súðavík þá brást sveitarstjórn einnig  við þegar hún frétti hvað í bígerð var og hafði forgöngu um það samkomulag sem greint er frá. Að sjálfsögðu hefði verið æskilegt að ekki hefði þurft að koma til svo harðra aðgerða til að knýja ákvörðun um niðurskurð þjónustunnar til baka.

Baráttan ber árangur

Það kom ekki á óvart að forystumenn Íslandspósts reyndu að verja fyrirætlanir sínar í lengstu lög. Fullyrt var  að breytingar á póstþjónustunni væru í samráði við Póst og fjarskiptastofnun sem er eftirlitsaðili með þjónustunni.

Bæði póstþjónusta og almenningsamgöngur heyra undir samgönguráðherra og sem jafnframt er fyrsti þingmaður kjördæmisins. Fulltrúar Vinstri grænna, Frjálslyndra og Samfylkingar óskaðu eftir fundi þingmanna  kjördæmisins um þetta mál ef ekki yrði horfið frá áætlun um skerðingu þjónustunnar við Djúpmenn.

Eftir að hin hörðu mótmæli íbúanna, einstakra þingmanna og fleiri komu fram tel ég að samgönguráðherra hafi brugðist vel við og fagna íhlutun ráðuneytisins að lausn málsins.

Samkomulagið felur m.a. í sér að fallið  er frá því að skilja póst Djúpmanna eftir vörslulausan í gámi fjarri mannabyggð eins og Íslandspóstur ætlaði sér. Þá mun póstbíllinn áfram þjóna sem almenningssamgöngutæki íbúanna við Djúpið og tryggja  tengsl við næsta þéttbýli, Ísafjörð eða Hólmavík. Póstinum verður dreift frá Ísafirði  inn í Djúp á sama hátt og verið hefur og farnar verða þrjár ferðir í viku um Djúpið til Ísafjarðar sem íbúarnir geta nýtt sér að kostnaðarlausu. Þá getur pósturinn sinnt ýmsum kaupstaðarviðvikum fyrir íbúana.

Hafa ber í huga að vegalengdir innan byggðarinnar eru miklar eða góðir  200 kílómetrar hvor leið frá Ísafirði til innstu bæja við Djúpið.

Djúpmenn gefa öðrum gott fordæmi

Samkomulag það sem nú hefur verið gert milli Súðavíkurhrepps, Samgönguráðuneytis og Íslandspóst er til eins árs. Sveitarstjórinn leggur áherslu á að þann tíma þurfi að nýta sem best til að finna  farsælustu leið til að tryggja  öfluga þjónustu við íbúana við Ísafjarðardjúp til frambúðar.

Búsetan við Djúpið, framleiðslan og fjölþætt störf fólksins, verndun og nýting landgæða og menningararfs  er okkur mikils virði. Byggðin við Ísafjarðardjúp á sinn óskoraða samfélagslega rétt. Hún  stækkar Ísland og okkur sem þjóð. Þið íbúar við Ísafjarðardjúp eigið heiður skilið fyrir baráttu ykkar í þessu máli. Djúpmenn hafa gefið öðrum íbúum hinna dreifðu byggða gott fordæmi.

Það á ekki að láta stöðugan niðurskurð almannaþjónustu yfir sig ganga baráttulaust.
 
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.