16/06/2024

Mælingar á Drangajökli

Dagana 19. og 20. apríl var farin mælingarferð á vegum Orkustofnunar á Drangajökul og fóru Orkustofnunarmenn um jökullinn með starfsmönnum Orkubús Vestfjarða á Hólmavík. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur nú fengið í hendur greinargerð frá Sölva R. Sólbergssyni hjá Orkubú Vestfjarða um verkefnið. Oddur Sigurðsson jöklafræðingur var leiðangurstjóri og mun vinna úr mæliniðurstöðunum. Auk Orkustofnunar sér Háskóli Íslands um skönnun landsins undir jöklinum með íssjá sem er hluti af verkefninu.

Orkubú Vestfjarða styrkir þetta verkefni með láni á farartækjum og tveimur aðstoðarmönnum, en það voru Eysteinn Gunnarsson og Júlíus Freyr Jónsson sem fóru á jökulinn frá vinnuflokki OV á Hólmavík.  Orkubúið mun aðstoða áfram við ferðir inn á jökulinn til að safna árlegum upplýsingum. Í ferðinni nú á dögunum og í annarri ferð í haust er jökullinn yfirborðsmældur með GPS tæki til að fá fram nákvæmar hæðarlínur og einnig landslagið undir jöklinum sem er gert með svokallaðri íssjá. Langtímamælingarnar ganga út á að mæla úrkomu yfir veturinn sem snjódýpt á nokkrum vel völdum stöðum og hver bráðnunin verður yfir sumarið.

Orkubúið aðstoðaði á sínum tíma við mælingar á ám að vetri til á hálendi Ófeigsfjarðarheiðar til að safna rennslisgögnum á þeim tíma þegar líklegt er að rennslið sé í lágmarki. M.a. var notast við skurðgröfu á flotmiklum dekkjum því djúpt var á vatnið undir snjónum. Almennt séð eru nærliggjandi jöklar gagnlegir til að betrumbæta önnur gögn sem lögð eru til grundvallar til að meta afrennsli landsvæða sem henta til virkjunar. Drangajökull gerir meira. Hugsanlega gæti það komið til að hluti af afrennsli jökulsins yrði nýtt til virkjunar sem væri t.d. staðsett í Ófeigsfirði.

Meðfylgjandi mynd var tekinn í leiðangrinum upp af Leirufirði sem er norðvestasti hluti jökulsins. Þar er lægsti hluti hans og var fyrsta stikan sett í 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan með jöfnu millibili upp að hæsta hluta jökulsins, eða í 930 metra yfir sjávarmáli. Reynsla af öðrum jöklum er að úrkoma eykst eftir því sem hæðin er meiri. Fleiri stikur voru settar og m.a. ein á suðaustustu bunguna upp af Skjaldfannardal sem er í 850 m.y.s..

Strax eftir þessa fyrstu ferð kom ýmislegt á óvart. Á hæsta stað upp af Leirufirði var snjódýpt vetrarins(ársúrkoma) 4 metrar og öfugt við reynslu á öðrum jöklum var 6 m dýpt upp af Skjaldfannadal sem er eins og kom fram hér á undan aðeins lægri en upp af Leirufirði. Til samanburðar, þá er t.d. 6 metra ársúrkoma í 1.800 m.y.s. á Hofsjökli. Fróðlegt verður því að fylgjast með þessum rannsóknum jafnóðum og upplýsingar berast.