28/04/2024

Lokaumferð tippleiksins

Í lokaumferð tippleiks strandir.saudfjarsetur.is eigast við þær Ásdís Jónsdóttir á Hólmavík og Árný Huld Haraldsdóttir, en svo skemmtilega vill til að Árný er dótturdóttir Ásdísar. Það er útlit fyrir ótrúlega spennandi viðureign, en einungis þrír leikir skilja spárnar að. Úrslit leiksins ráðast alfarið á úrslitum þessarar viðureignar, en Jón Jónsson sem hefur verið efstur í leiknum frá upphafi þarf að treysta á að Ásdís geri jafntefli eða tapi – ef hún sigrar Árnýju hefur hún farið með sigur af hólmi í leiknum. Það hefur því aldrei verið jafn taugatrekkjandi að fylgjast með eins og nú og hætt er við því að keppendur fari endanlega á límingunum á morgun. Síðustu spár vetrarins má sjá hér fyrir neðan:

1. Newcastle – Chelsea

Ásdís: Jafntefli. Tákn: X.
 
Árný: Hérna verður spilað af mikilli hörku. Newcastle hefur ekki tapað í minnsta kosti seinustu sex leikjum og ætla ekki að fara að tapa núna…hvað þá fyrir Chelsea…en það er gott að vera á toppnum! Tákn: X.
 
+++
2. Man. Utd. – Charlton
 
Ásdís: Heilagur heimasigur. Tákn: 1.
 
Árný: Auðvitað held ég með Man.Utd. Þar sem Ronaldo (Sæti eins og ég kalla hann) stefnir að því að verða besti fótboltamaður í heimi hlýtur hann að skora einhver mörk og sjá til þess að Man. Utd. vinni!! Tákn: 1.
 
+++
3. Portsmouth – Liverpool
 
Ásdís: Liverpool rústar Kolaportinu. Tákn: 2.
 
Árný: Liverpool hefur unnið síðustu 10 leikina sína en Portsmouth ekki…  ef Garcia verður með hárbandið og í stuði tippa ég á Liverpool! Tákn: 2.
 
+++
 
4. Arsenal – Wigan
 
Ásdís: Þetta er heimasigur, engin spurning. Tákn: 1.
 
Árný: Wigan eru búnir að vera að tapa eins og þeir fái borgað fyrir það… eða þeir fá kannski bara líka borgað fyrir það? Arsenal er að berjast um fjórða sætið til að komast í Meistaradeildina og þurfa á sigrinum að halda… Henry verður eldhress og á skotskónum! Tákn: 1.
 
+++
 
5. West Ham – Tottenham
 
Ásdís: Hér spila ham liðin. Tottið vinnur. Tákn: 2.
 
Árný: Bróðir Eddie Murphy hann Danny ætlar sér að komast í Meistaradeildina og mun ekkert gefa eftir þegar félagarnir í West Ham mæta á völlinn! Edgar Davids er líka svo svalur með gleraugu eins og ég… þannig að ég segi að West Ham tapi! Tákn: 2.
 
+++
 
6. Bolton – Birmingham
 
Ásdís: Bolton vinnur. Skák og mát. Tákn: 1.
 
Árný: Birmingham mega halda áfram að brynna músunum og tapa all rækilega fyrir Bolton. Ivan Campo reynir sitt besta til að komast af www.uglyfootballers.com með því að hjálpa til við markaskoranir! Tákn: 1.
 
+++
 
7. Blackburn – Man.City
 
Ásdís: Svarti bruninn vinnur borgina. Tákn: 1.
 
Árný: Auðvitað vilja allir komast í Meistaradeildina og ekki eru Blackburn neinir eftirbátar í þeim málum. Andy Cole mun samt ekki gefa neitt eftir og verður því jafntefli allsráðandi í leiknum! Tákn: X.
 
+++
 
8. Fulham – Middlesboro
 
Ásdís: Fýlukallarnir í Fulham vinna þennan leik. Tákn: 1.
 
Árný: Steve McClaren ætlar að hafa varaliðið inná, „Ungir og efnilegir” heitir lið Middlesbrough núna… Heiðar Helguson skorar eins og honum einum er lagið…  en ef hann gerir það ekki gerir Steed Malbranque það! Tákn: 1.
 
+++
 
9. Everton – W. B. A.
 
Ásdís: Hef aldrei skilið þessar skammstafanir. Tákn: 1.
 
Árný: Everton eiga eftir að vaða í færum… en ekki nýta þau! Tákn: X.
 
+++
 
10. Aston Villa – Sunderland
 
Ásdís: Vilhjálmssynir fara með sigur af hólmi. Tákn: 1.
 
Árný: Milan Baros er svo vel af guði gerður að hann setur að minnsta kosti eitt mark fyrir dyggan aðdáanda…ég held mest með honum og hann getur ekki annað en staðið undir væntingum mínum! Tákn: 1.
 
+++
 
11. Gautaborg – Hacken
 
Ásdís: Gautaborg?? Er hún ekki í Svíþjóð? Tákn: 1.
 
Árný: Þetta verður yndislegur leikur sem enginn Gautaborgaraðdáandi má missa af því þeir vinna leikinn… og ekkert meira með það! Tákn: 1.
 
+++
 
12. GAIS – Djurgarden
 
Ásdís: Þetta er óskiljanlegt. Tákn: 2.
 
Árný: Ég hef aldrei haldið með Víking og Djurgarden hefur tvo svoleiðis…auk þess er íslendingurinn Jóhann Guðmunsson besti íþróttamaðurinn í Gais (ef ég skil sænskuna rétt)! Tákn: 1.
 
+++
 
13. Kalmar – Hammarby
 
Ásdís: Takk fyrir mig. Over and out. Tákn: 2.
 
Árný: Hammarby tekur Kalmar í nösina með Pétur Marteinsson og Gunnar Þór í broddi fylkingar… þeir eru líka gott sem búnir að vinna deildina og hafa bara gaman af! Tákn: 2.
+++

Ásdís: Þess má geta svona í restina að við alla leiki þessarrar helgar sat „Ættarhugboðið” á vinstri öxlinni á mér og hvíslaði tölunum í eyrað á mér. Það hefur skipt sér af mörgu og er nú ekki alltaf trúverðugt, svo þetta getur brugðið til beggja vona. Látum samt spána flakka.

Árný: Verði það sem verða vill…mig dreymdi „góðan” draum í fyrradag!