24/07/2024

Fjör í menningarlífinu

Lóuþrælarnir sungu á Hólmavík um síðustu helgiBókakvöldi hjá Héraðsbókasafni Strandasýslu sem vera átti í kvöld hefur verið frestað fram á fyrsta fimmtudag í maí og stefnt að því að þá verði mikið um dýrðir. Menningarþyrstir ættu þó ekki að kvíða helginni því tónleikar, bingó og leiksýning eru á dagskránni á Hólmavík um helgina. Sönghópurinn Vorboðinn úr Dalasýslu heldur tónleika í Hólmavíkurkirkju laugardagskvöld kl. 21:00 og á sunnudeginum kl. 14:00 stendur Félag eldri borgara í Strandasýslu fyrir bingói í Félagsheimilinu á Hólmavík. Kómedíuleikhúsið heimsækir Hólmavík síðan á sunnudagskvöld og sýnir einleikinn Gísli Súrsson þar sem Elvar Logi Hannesson fer á kostum. Hefst sýningin kl. 21:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík.


Loks má nefna að Vorhátíð Finnbogastaðaskóla verður haldin í kvöld, fimmtudaginn 14.apríl í Félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík kl. 21:00. Þar verður sungið og spilað, veitingar verða á boðstólunum og stiginn dans fram undir miðnætti.