13/10/2024

Listamannaþing í Sævangi

645-saevangur

Félag vestfirskra listamanna heldur svokallað Listamannaþing laugardaginn 21. maí í Sauðfjársetrinu í Sævangi kl. 13-15:30. Slíkt þing hefur verið árlega síðustu árin, en þingið er nú í fyrsta sinn haldið á Ströndum. Listamannaþingið verður mannfagnaður fyrir öll skilningarvit: á ferðinni fróðleikur, skemmtan, fjöruferð og kaffidrykkja í hæfilegum hlutföllum. Allir eru hjartanlega velkomnir, listafólk, ferðaþjónar, fræðimenn, sveitarstjórnarmenn, allir íbúar Vestfjarða og annað gott fólk sem áhuga hefur. Fróðleg erindi eru á boðstólum, m.a. Ágúst Einarsson menningarhagfræðingur, og þemað er menningartengd ferðaþjónusta. Ekki er síður mikilvægt að þinggestir kynnist hverjir öðrum og bæti þannig skemmtilegu og skapandi fólki við tengslanetið.

Á dagskránni eru:

– Ágúst Einarsson, menningarhagfræðingur, heldur erindi um hagræn áhrif lista.
– Nína Ivanova, leiðsögu- og listamaður, fjallar um hvernig sögu og menningu er miðlað til farþega skemmtiferðaskipa.
– Dagrún Jónsdóttir, þjóðfræðingur, kynnir Náttúrubarnaskólann og tekur þinggesti í kennslustund í fjörunni.
– Félag vestfirskra listamanna segir stuttlega frá sér og sínu starfi.
– Verkefnið Álagablettir verður kynnt ásamt fleiru úr heimi þjóðfræðinnar.
– Heimamenn verða með óvæntar uppákomur; fræðierindi og skemmtiatriði.

Fundarstjóri er Jón Jónsson, menningarfrömuður á heimavelli. Kaffiveitingar, kennslustund og allt annað verður ókeypis og veðrið á að vera gott.

Félag vestfirskra listamanna og Sauðfjársetur á Ströndum má finna á Facebook.