07/10/2024

Þjóðfræðisprell og eftirhermukeppni á Hólmavík – allir velkomnir!

Tröllin

Föstudaginn 20. maí verður dagskrá sem ber yfirskriftina Þjóðfræðisprell á veitingastaðnum Café Riis á Hólmavík. Húsið opnar 17:30 en dagskráin byrjar 18:00 og eru allir sem áhuga hafa hjartanlega velkomnir í fjörið. Það er Kristín Einarsdóttir stundakennari í þjóðfræði við HÍ sem er að flytja á Strandir og nokkrir þjóðfræðinemar sem standa fyrir sprellinu, þar sem fróðlegar og skemmtilegar kynningar tengdar þjóðfræði eru á dagskránni. Einnig er hlaðborð á vegum Café Riis á boðstólum, söngur og sprell, eftirhermukeppni, nikkuleikur og fleira skemmtilegt.

Dagskráin er svohljóðandi:

# Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur opnar kvöldið og ræðir um þjóðfræði fyrr og nú
# Jón Jónsson þjóðfræðingur talar um þjóðfræðiverkefni á Ströndum og segir sögu Þjóðbrókar (sem er tröllskessa á Ströndum sem félag þjóðfræðinema heitir eftir).
# Agnes Jónsdóttir fjallar um flæðarmál og fjörulalla
# Anna Katrín Hafsteinsdóttir segir frá draugnum Bersa
# Dagrún Ósk Jónsdóttir talar um hryllilegar mannætur í þjóðsögnum

Þá verður hægt að kaupa hlaðborð á Café Riis og gæða sér á dýrindis veitingum undir ljúfum tónum Ásdísar Jónsdóttur sem ætlar að spila á harmonikku.

# Eftir matinn ætlar þjóðfræðingurinn Eiríkur Valdimarsson að tala um veður og þjóðtrú tengda því.
# „Þá var grátur mín síðasta vörn“ Gunnar Jóhannsson syngur nokkur þekkt dægurlög og Kristín túlkar textana og tengir við íslenskt samfélag.

Eftir þetta er ætlunin að efna til rosalegrar eftirhermukeppni þar sem öllum er velkomið að herma eftir hverjum sem þeim dettur í hug og fær besta eftirherman vegleg verðlaun!

Gunnar Jóhannsson úr Þyrlaflokknum, Ásdís Jónsdóttir strandanorn og skáld og Agnes Jónsdóttir þjóðfræðidúlla ætla svo að slá botninn í kvöldið með nokkrum skemmtilegum lögum.