21/12/2024

Langt í bráðnauðsynlegar vegaframkvæmdir

Strandamenn eru margir óánægðir með samgönguáætlanir til fjögurra og tólf ára sem lagðar voru fram á Alþingi fyrir skemmstu. Langt er í framkvæmdir á veginum norður í Árneshrepp, en íbúar þar búa í eina sveitarfélaginu á Íslandi sem ekki býr við samgöngur á landi allt árið. Þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á næsta áratug hafa allar verið á áætlun áður og áttu að koma til framkvæmda á síðustu árum. Þær fyrirætlanir brugðust og Strandamenn voru sviknir um þessar umbætur.

Á næsta ári á að ljúka framkvæmdum við veginn í botni Steingrímsfjarðar, en þessu hefur verið lofað árlega við ólík tækifæri síðustu árin. Verkið við vegagerðina sjálfa hefur þó ekki verið boðið út ennþá, en til stendur að ný brú yfir Staðará verði tilbúin í júní á næsta ári.

Fjárveitingar eru til framkvæmda á veginum um Bjarnarfjarðarháls á árunum 2015-18, en á Veiðileysuhálsi á árunum 2019-22. Áætlaðar eru 150 milljónir í Bjarnarfjarðarháls og 350 í Veiðileysuhálsinn.

Á árunum 2018-19 eru fyrirhugaðar framkvæmdir á vegi 68, milli Heydalsár og Þorpa. Þar er eftir tæplega 4 km kafli sem ekki er með bundnu slitlagi, en einnig þarf að lagfæra legu hans um Smáhamraháls. Einbreið brú er þar á Heydalsá og kaflinn þar í kring er alltof oft mjög holóttur og leiðinlegur. Samtals eru ætlaðar 190 milljónir í þetta verkefni.

Af öðrum framkvæmdum í samgönguáætlun, sem lítið hafa verið í fréttum, má nefna að á árunum 2019-22 er ætlunin að vinna að því að endurnýja fjórar einbreiðar brýr á vegi 60 í Dalasýslu, yfir Glerá, Fáskrúð, Reykjadalsá og Haukadalsá. Þetta eru allar þær einbreiðu brýr sem nú eru milli Hólmavíkur og Reykjavíkur. Ekki eru nefndar til sögu neinar einbreiðar brýr á Ströndum, en á vegi 68 frá Steingrímsfirði að Hrútafjarðarbotni eru til dæmis 13 slíkar.