26/04/2024

Hætta á alvarlegu ástandi við sjúkraflug til Hólmavíkur

Flugstöðin á HólmavíkÁ ruv.is er sagt frá því að alvarlegt ástand gæti skapast í sjúkraflugi vegna skertrar þjónustu
á nokkrum flugvöllum á landsbyggðinni og er flugvöllurinn á Hólmavík nefndur sem dæmi. Flugstjórar sjúkraflugsþjónustu
Mýflugs eru ómyrkir í máli um ástandið, en í bréfi Mýflugs til nokkurra
ráðuneyta eru nefndir fjórir flugvellir; á Hólmavík, Húsavík, Norðfirði
og Bíldudal. Sá síðastnefndi er þó raunar sagður í ágætu ástandi enda notaður til
áætlunarflugs, en þar vantar þjónustu við sjúkraflugið.

Í fréttinni á ruv.is segir:

Um Húsavíkurflugvöll segir að þar sé litla sem enga þjónustu
að hafa þar sem starfsmanni, með margra ára reynslu, hafi verið sagt upp.
Tekið er dæmi um sjúkraútkall  í júlí í sumar þar sem starfsmaður frá
Akureyri sem af tilviljun var í nágrenninu var kallaður til. Hann hafi
engin lyklavöld haft að vellinum og þurft að brjóta upp lás til að geta
sinnt sinni vinnu.

Um Hólmavíkurflugvöll segir að þar sé enginn
launaður starfsmaður og séu flugmenn háðir sjálfboðavinnu fyrrverandi
starfsmanns. Ekkert slitlag sé á brautinni sem kalli á ítarlega skoðun
hvert sinn sem vél þurfi að fara þangað. 

Á Bíldudalsflugvelli
starfi einn maður með mikla reynslu en hann fái þó ekkert borgað fyrir
að vera til taks utan venjulegs tíma áætlunarvéla. Afleysingamaður sem
þar var í sumar hafi talið sig ekki eiga neinum skyldum að gegna við
tilfallandi sjúkraflug til þess hefði hann ekki verið ráðinn. 

Um
Norðfjarðarflugvöll segir að hann sé mjög erfiður. Þar starfi tveir
menn; annar hafi réttindi til að gegna þjónustunni en hinn ekki. Nú sé
þjónustusamningur um rekstur Norðfjarðarflugvallar útrunninn og útlit
fyrir að hann verði ekki endurnýjaður.