22/07/2024

Landsmót hagyrðinga um helgina

Landsmót hagyrðinga verður haldið á Hólmavík á laugardaginn kemur og hefst skemmtunin kl. 20:00 í Félagsheimilinu. Skráning hefur verið ágæt og stefnir í skemmtilega samkomu, en allir sem áhuga hafa mega mæta – hvort sem ætlunin er að horfa og hlusta eða yrkja. Til skemmtunar verður margvísleg vísnagerð, auk þess sem söngatriði og kveðskapur setur svip á mótið. Enn er hægt að skrá þátttöku á mótinu í s. 451-3474 eða netfangi saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is. Aðgangseyrir er 4.000.-

Sauðfjársetur á Ströndum sér um að holugrilla lambalæri fyrir mannskapinn og heiðursgestur mótsins verður Bjarni E. Guðleifsson náttúrufræðingur á Möðruvöllum. Veislustjóri er Bergur Torfason frá Felli, en Kristján Stefánsson frá Gilhaga mun ásamt fleirum spila á harmonikku fyrir dansi fram eftir nóttu þegar dagskrá lýkur. Stór hópur frá Kvæðamannafélaginu Iðunni mætir til leiks og fer Sigurður Sigurðarson dýralæknir fyrir hópnum og munu félagar örugglega troða upp. Ingi Heiðmar Jónsson stjórnar fjöldasöng og margir fleiri taka þátt í skemmtuninni.

Í Landsnefnd hagyrðingamóta eru Jón Jónsson á Kirkjubóli, Stefán Vilhjálmsson Akureyri, Þorsteinn Bergsson Unaósi, Ragnar Böðvarsson Selfossi og Sigrún Haraldsdóttir Reykjavík.