16/10/2024

Kvennakórinn fer á kóramót

Óvenjumikið var um að vera í Ríkinu á Hólmavík núna seinnipartinn þegar tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is leit þar inn til að sækja dagsskammtinn sinn, kassa af bjór og hálfan pott af rommi. Örtröðin var þó nokkur og áberandi að enga konu var að sjá innan dyra vínbúðarinnar sem er staðsett í húsnæði kaupfélagsins á staðnum og er opin alla virka daga frá kl. 17:00 -18:00. Eftir að tíðindamaðurinn hafði verslað og skotið sér út í gegnum örtröð fullvaxinna karlmanna með undarlegan eftirvæntingarglampa í augum, þá sá hann í afturenda rútunnar sem ók af stað með fjölskipaðan kvennakór af Ströndum á kóramót sem haldið er á Suðurnesjum um helgina. Meðan tónar fjörugra og grunlausra söngkvenna fjöruðu út í fjarlægð og rútan hvarf í rykmekki suður Grundirnar, þá gullu við mikil hlátrasköll og gleðilæti í Ríkinu.

"Hei, strákar, partý hjá mér!", heyrðist hrópað innan um flöskuglamrið. Undir var tekið með digrum karlaróm og hrossahlátri svo engu var líkara en tröllin hefðu aftur sest að á Ströndum.

Góða helgi strákar. Og skemmtið ykkur vel fyrir sunnan stelpur.