12/09/2024

Mikið um að vera á Ströndum

Mikið er um að vera á Ströndum í dag. Í fréttatilkynningu frá Upplýsinga-miðstöðinni á Hólmavík er minnt á ýmsa atburði helgarinnar. Kl. 11 í dag hefst Héraðsmót HSS í frjálsum íþróttum á Sævangsvelli og kl. 14:00 verður opnuð glæný sundlaug á Drangsnesi. Frítt er í sund í tilefni dagsins. Í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík ætlar knattspyrnukappar sem voru upp á sitt besta á 8. áratugnum að mæta kl. 14:30 og afhenda íþróttafélögum á Ströndum fótbolta og börnum sem viðstödd verða Adidas vatnsbrúsa. Einnig er stefnt að því að hafa hraðmót í fótbolta í íþróttahúsinu að afhendingunni lokinni. Norður við minja- og handverkshúsið Kört í Árneshreppi stendur til að afhjúpa minnisvarða í dag og hefst sú athöfn kl. 14:00 við Kört. Á morgun sunnudag verður hefðbundið kaffihlaðborð í Sauðfjársetrinu í Sævangi frá kl. 14-18.