16/06/2024

Keli í aðalhlutverki í söngleik

RígurinnÍ kvöld verður frumsýndur á Akureyri söngleikurinn Rígurinn, sem settur er upp í samvinnu nemenda Menntaskólans og Verkmenntaskólans þar í bæ. Rígurinn er rokksöngleikur eftir Ævar Þór Benediktsson og Andra Má Sigurðsson, en leikstjóri er Þorvaldur Örn Arnarsson (Jónssonar). Í aðalhlutverkum eru Þorkell Stefánsson, Unnur Birna Björnsdóttir, Albert Sigurðsson og Snjólaug Svala Grétarsdóttir, öll nemendur MA.

Rígurinn er ástarsaga í stíl sögunnar af Rómeó og Júlíu, sett á svið á Akureyri þar sem Hrafnarnir úr Menntaskólanum og Þrumurnar úr Verkmenntaskólanum takast á, eða eins og höfundarnir sjálfir segja: „Rígurinn er söngleikur um ást, hatur, frið, von og trú ásamt allri þeirri geðveiki, vandræðagangi og vitleysu sem fylgir því að vera í framhaldsskóla. Hann er öðruvísi en allt sem þú hefur séð áður í framhaldsskólasýningu: Tónlistin er þyngri, húmorinn er beittari og andrúmsloftið kraftmeira! Rokk, ról, ofbeldi, kynþokki, stuð og stemming á æðsta plani!“

Eins og glöggir Strandamenn átta sig á er aðalleikarinn Þorkell sonur Stefáns Gíslasonar og Bjarkar Jóhannsdóttur, sem bjuggu á Hólmavík árum eða jafnvel áratugum saman. Þorkell ólst upp á Hólmavík til 12 ára aldurs og stundaði nám við Tónskólann á staðnum síðari helming þess tíma. Þess má og geta að Jón Ingimundarson (og Sólrúnar) leikur á hljómborð í hljómsveit Rígsins.

Nánari upplýsingar um Ríginn, þar með talið sýningartíma og margt fleira, er að finna á heimasíðu sýningarinnar, www.rigurinn.tk.

Þorkell Stefánsson (Keli) og Unnur Birna Björnsdóttir prýða kynningarveggspjald Rígsins

Aðalleikararnir og -söngvararnir í söngleiknum Rígurinn, (Keli lengst til hægri).

Verkmenntaskólagengið Þrumurnar. Þriðja frá vinstri er Hildigunnur Þórsdóttir (Lóa Soffíu).