27/02/2024

Kalkþörungaleit í Húnaflóa

Frá því var sagt á ruv.is í dag að Orkustofnun hefur veitt Björgun og Íslenska kalkþörungafélaginu leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á fimm svæðum á hafsbotni í við Húnaflóa til 15. ágúst 2011. Leitar- og rannsóknasvæðin eru í vestanverðum Miðfirði, austan- og vestanverðum Hrútafirði, sunnanverðum Steingrímsfirði og út af Drangsnesi og umhverfis Grímsey við norðaustanverðan Steingrímsfjörð.

Í fréttinni á ruv.is segir ennfremur:

"Leyft verður að kortleggja jarðmyndanir í Steingrímsfirði vegna leitar að
kalkþörungaseti og að taka kjarna úr kalkþörungaseti í Miðfirði, Hrútafirði og
Steingrímsfirði en fjölda þeirra skal haldið í lágmarki. Gefi niðurstöður
kjarnarannsókna til kynna að kalkþörungar séu í vinnanlegu magni verða
prufudælingar á kalkþörungaseti leyfðar á leitar- og rannsóknasvæðunum, að
undanskildu syðra svæðinu í Steingrímsfirði, að hámarki á fjórum stöðum.
Rannsóknunum eru ýmis takmörk sett. Þær verða að fara fram í minnst 2 kílómetra
fjarlægð frá ósum lax- og silungsveiðiáa. Ekki má taka stærra sýni á hverjum en
100 rúmmetra og prufudælingar mega ekki fara fram á tímabilinu frá 15. apríl til
15. september.

Tekið er fram í frétt á vef Orkustofnunar að leyfið sé ekki sérleyfi og
takmarki ekki rétt Orkustofnunar til að veita öðrum leyfi til leitar eða
efnistöku á sama svæði. Leyfið feli heldur ekki í sér fyrirheit um að Björgun og
Íslenska kalkþörungafélagið hafi forgang að nýtingarleyfum svæðinu."