11/11/2024

Skoskur fræðimaður heimsækir Strandir

Miðvikudaginn 26. ágúst mun Katherine M. Campbell, lektor í
þjóðfræði við Edinborgarháskóla, sækja Strandir heim, en hún heldur erindi á vegum Þjóðfræðistofu á Kaffi Galdri á Hólmavík kl. 20:00. Þar mun hún segja frá nýhöfnu samstarfsverkefni um hinn mikilvirka safnara John
Levy og söfnun hans hér á landi. Levy safnaði þjóðfræðum og tónlist um allan
heim en gríðarlegt safn liggur eftir hann í Edinborgarháskóla. Söfnun hans
og upptökur hér á landi vöktu mikla athygli á sínum tíma og gátu meðal annars
af sér útgáfu hljómplatna með íslenskum þjóðlögum og kvæðasöng. Flutt
verða sýnishorn af upptökum Levy og á meðal þátttakenda verður kvæðakonan góðkunna, Ása
Ketilsdóttir á Laugalandi.


Þar sem margir eru óvanir hinum
fagra skoska hreim verður einnig stiklað á stóru á hinu ástkæra
ylhýra. Nánar á vef Þjóðfræðistofu www.icef.is.