26/04/2024

Jón lærði og Viðar Hreinsson á vetrarhátíð Strandagaldurs

Fræðimaðurinn Viðar Hreinsson heimsækir Strandir um helgina og kynnir bók sína um Strandamanninn og 17. aldar alþýðufræðimanninn Jón lærða Guðmundsson. Kynningin er hluti af vetrarhátíð Strandagaldurs og fer fram á Restaurant Galdri kl. 15:00 laugardaginn 18. febrúar. Ekkert kostar inn á viðburðinn, en bókin verður til sölu. Bókin Jón lærði og náttúrur náttúrunnar er eigulegur gripur sem fékk mjög góða dóma, var m.a. tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Jón lærði Guðmundsson sem lifði á árabilinu 1574-1658 var víðkunnur fyrir handrit sín og fræði, auk þess sem hann var afbragðs handverksmaður, sinnti lækningum og var álitinn fjölkunnugur. Jón var stundum kallaður Jón málari eða Jón tannsmiður, fyrir listaverk sín úr hvaltönnum. Mikið af handritum hans og skrifum er varðveitt.

Jón fæddist í Ófeigsfirði og ólst þar upp og bjó svo víðar í Árneshreppi, en dvaldi um tíma á Ósi og Kálfanesi við Steingrímsfjörð. Jón kvæntist haustið 1600 Sigríði Þorleifsdóttur frá Húsavík í Steingrímsfirði og fór hjónavígslan fram að Kirkjubóli. Þau hófu síðan búskap í Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði, en fóru nokkrum árum síðar norður í Árneshrepp aftur.

Á árunum 1611 og 1612 var Jón kallaður til sem draugabani og kvað niður tvo býsna magnaða drauga á Snæfjallaströnd með mögnuðum galdrasæringum, Fjandafælu og Snjáfjallavísum. Eftir Spánverjavígin 1615 mótmælti Jón meðferð sýslumannsins Ara í Ögri og hans manna á skipbrotsmönnum, en hrökklaðist eftir það af Vestfjörðum. Settist þá að undir Jökli og rak þar einhvers konar galdraskóla og stundaði lækningar. Fyrir þetta var hann dæmdur útlægur af landinu og fór til Kaupmannahafnar og fékk málið tekið upp að nýju. Jón átti svo heima fyrir austan síðustu áratugi æfinnar.