22/12/2024

Íslandsmeistaramót í hrútaþukli 20. ágúst

Það verður sannkölluð stórhátíð í Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum eftir rúma viku, laugardaginn 20. ágúst kl. 14:00. Þá verður haldið í níunda sinn Íslandsmeistaramót í hrútadómum – venjulega kallað hrútaþuklið – en þessi íþróttagrein hefur smám saman náð almennri hylli landans síðan Sauðfjársetrið hóf að halda slíkt mót árið 2003. Um kvöldið verður síðan haldið Þuklaraball í félagsheimilinu á Hólmavík með hljómsveitinni Upplyftingu.

Nóg verður um að vera; ókeypis verður inn á safnið og sýningu þess, ljúffengt kaffihlaðborð verður í boði í Kaffi Kind, skemmtiferðir verða farnar í dráttarvélavagni og fleira til gamans gert. Reyndir og óreyndir þuklarar hvaðanæva að af landinu eru boðnir innilega velkomnir á þessa miklu hátíð.

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur og æðsti sauðfjárspekúlant Íslands fer fyrir dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram. Síðan reyna keppendur, vanir og óvanir, sig við matið á hrútunum með hendur og hyggjuvit að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir.

Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu fara hins vegar eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum!

Um kvöldið verður síðan hægt að smella sér síðan á Þuklaraballið svonefnda sem fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík, en þar spilar hljómsveitin Upplyfting fyrir dansi.